Samtök grænkera á Íslandi stuðla að jákvæðri ímynd og fjölgun grænmetisæta, standa vörð um hagsmuni þeirra og vinna að því að fjölga valkostum nauðsynja- og neysluvara án dýraafurða.


GANGA Í SAMTÖKIN

Að hætta að borða kjöt…

Flestar grænmetisætur voru einu sinni kjötætur og ég er engin undantekning frá því. Þegar ég var að alast upp var venjuleg máltíð kjöt með smá meðlæti á kantinum, aðallega kartöflum og brúnni sósu. Ég hafði heyrt um grænmetisætur og fannst það áhugavert en ég var ekki hippi svo þetta var ekki eitthvað fyrir mig. Að ég gæti sleppt því að borða mjólk og egg fannst mér óhugsanlegt.

Í dag er ég stolt af því að kalla mig grænmetisætu. Meira að segja “ýktu” gerðina, Vegan! Ég borða ekkert kjöt, ekki fisk og sneyði hjá mjólkurvörum og eggjum eins og ég get. Ég vel gerfileður fram yfir ekta leður og vel sængur og kodda án fiðurs.

Ástæðurnar fyrir því að ég fór af stað í þessa lífsstíls breytingu eru margar en fyrst og fremst kærleikur í garð annarra dýra.

Ástæðurnar fyrir því að ég fór af stað í þessa lífsstílsbreytingu eru margar en fyrst og fremst kærleikur í garð annarra dýra. Mér finnst mín tilvera ekki vera yfir aðrar tilverur hafin og vil ekki að láta enda annað líf fyrir máltíð fyrir mig þegar ég get lifað góðu lífi án þess.

Ástæður fyrir því að fólk skiptir um matarræði eru margar og aðferðirnar misjafnar. Sumir horfa á eina heimildamynd (til dæmis; Forks over Knifes, Food Matters, Food Inc. eða Earthlings) og taka 180 gráðu beygju á einu kvöldi. Hjá mér gerðist þetta ekki yfir nótt og hefur heldur ekki verið alveg áreynslulaust. Fyrir tæplega sjö árum byrjaði ég á því að taka rautt kjöt af matseðlinum. Ég hélt kjúklingi og fiski inni aðallega vegna vanþekkingar og vantrausts á mig og fjölskylduna mína. Mig skorti hugmyndir um hvað ég gæti eldað án kjúklingakjöts eða fisks. Á næstu mánuðum varð mér það ljóst að til að líða betur andlega, yrði ég að sneiða hjá allri kjötneyslu. Síðan fór fiskurinn út og síðast mjólkurvörur og egg.

En hvað á maður að borða þegar kjötvörur eru teknar út?

En hvað á maður að borða þegar kjötvörur eru teknar út? Pasta með grænmeti í tómatsósu eða súpur voru ansi oft lendingin fyrstu mánuðina og við notuðumst talsvert við “gerfikjöt” eða sojakjöt í gamalkunnar uppskriftir eins og hakk og spaghettí, tacos og chili. Bragðið var bara ekki það sama og ég viðurkenni að í langan tíma var maturinn oft ekki upp á marga fiska.

Það voru margar efasemdirnar fyrstu árin. Einn veturinn fannst mér börnin mín (þessir ljóshærðu Íslendingar) vera óvenju föl og kenndi kjötleysi um. Ég dró andann djúpt, fór í bestu matvöruverslunina í hverfinu, keypti kjöt af nauti, sem mér var lofað að hafi lifað innihaldsríku lífi, og setti í pottrétt.

Börnin voru alveg jafn föl næstu daga.

Ég var samt ekki svo efins að ég gæfist upp og sneri til baka. Eftir einhverja óspennandi máltíðina rann það upp fyrir mér að ég væri ekki að gera þetta alveg rétt. Grænmetisfæði snýst ekki bara um að taka ÚT kjöt heldur þarf líka að bæta INN einhverju góðu á móti.

Þið megið alveg segja upphátt “Auðvitað!” og jafnvel “Döö!”. Mér leið algjörlega þannig þegar þetta gerðist. Mér til varnar þá held ég að ansi margar grænmetisætur missi af þessu. Pasta með tómatsósu, ostapizza og gosdrykkir eru grænmetisfæði en sá/sú grænmetisæta sem lifir á því verður ekki hraust lengi. Því miður held ég að það sé steríótýpan sem margir hafa í kollinum. Orkulaus, föl og sljóleg Fríða Fennel.

Ég fór að lesa mér til um Whole Foods Plant Based Diet sem er matarræði sem byggist upp á óunnu fæði, aðallega úr plönturíkinu; grænmeti, ávextir, heil korn og hnetur. Ég fór að prófa mig áfram með korn eins og bygg og quinoa, hnetur, baunir og grænmeti eins og sætar kartöflur, grænkál, rauðrófur og baunaspírur. Ég hætti að vera feimin við olíur og krydd, sérstaklega salt og ferskar kryddjurtir. Afraksturinn varð bragðmikill og ferskur matur sem okkur leið vel eftir að borða.

Ég leita oft á mið Indverskrar, austurlenskrar, afrískrar og suðuramerískrar matargerðar þar sem er sterk hefð fyrir spennandi grænmetisréttum

Núna, fjórum til fimm árum síðar borðum við betri mat en nokkru sinni fyrr. Við prófum nýja rétti nokkrum sinnum í viku. Ég leita oft á mið Indverskrar, austurlenskrar, afrískrar og suðuramerískrar matargerðar þar sem er sterk hefð fyrir spennandi grænmetisréttum. Krakkarnir maula þaraflögur, biðja um baunaspírur, hummus, kálflögur og tofusalat. Ég er örugg um að ég sé að gefa börnunum mínum besta grunninn að heilbrigðu lífi og okkur foreldrunum bestu möguleikana að fá að upplifa það með þeim lengi. Við vorum heppin að því leiti að við áttum ekki við stórvægileg heilsufarsvandamál að stríða áður en við breyttum um matarræði. Ég hafði lifað með smávægilegum liðverkjum og bólgum síðan ég var unglingur sem ég losnaði alveg við eftir að ég hætti að neyta mjólkurvara. Pabbinn á heimilinu þjáðist af frjókornaofnæmi öll sumur en er laus við það líka. Við fáum örsjaldan umgangspestir, allar blóðprufur til fyrirmyndar (líka járn og B-12) og krakkarnir eru frísklegri á litinn en jafnaldrar þeirra í janúar.

Mamman sefur betur vitandi að við, fimm manna fjölskylda, komum í veg fyrir að um 500 dýr séu drepin á ári og enn fleiri látin þola illa meðferð í mjólkur eða eggjabúum.

Í stað þess að láta eina uppskrift fylgja með langar mig að stinga upp á gamalreyndum uppskriftum sem er hægt að gera vegan mjög auðveldlega.

muesli-412167_1280

Morgunmatur:

-Hafragrautur eða morgunkorn með móðurlausri mjólk, t.d. möndlu-, soja- eða hrísmjólk, ávöxtum, hnetusmjöri eða ristuðum pecan eða valhnetum.

-Heilkorna brauð með hummus, tómötum, lárperu og mylja yfir smá salt og pipar (algjört uppáhald hjá minni fjölskyldu).

-Skipta út kúamjólkur jógúrt fyrir soja eða kókosjógúrt með músli og ferskum ávöxtum.

Food_Pyramid_Vegetarian_Food_Guide

Aðalréttir:

-Taco eða burritos með „refried beans” í stað hakks. Sleppa osti og sýrðum rjóma ef þú vilt vera alveg vegan.

-Chili með allskonar baunum (linsubaunum eða nýrna-, eða svörtum baunum) í stað kjöts.

-Lasagna með ofnbökuðu grænmeti, muldar hnetur ofan á í stað osts.

-Súpur! Það eru óendanlega margar útgáfur að ljúffengum kjötlausum súpum. Tærar, með tómötum eða rjómalagaðar (með kókosmjólk í stað rjóma) grænmetissúpur. Það er gott að bæta dós af baunum út í fyrir meiri fyllingu, setja lúku af pasta eða byggi útí og jafnvel einn ofnbakaðan hvítlauk (tekur heilann hvítlauk, skerð ofan af mjóu endana, hellir smá olíu ofan á og pakkar inn í álpappír, bakar svo við 200C í 30-40 mín. þangað til hann er mjúkur)

-Kínverskt „stir fry“ með fullt af grænmeti, núðlum og jafnvel tófubitum.

-Skella grænmetisborgara á grillið í staðinn fyrir kjötborgara.

-Nota tofu bita í stað bita af kjúklingabringu t.d. í súrsætan kjúklingarétt.

Netið er stórkostleg uppspretta af uppskriftum og einföld leit að vegan mat skilar ykkur ótal spennandi möguleikum. Ég hvet alla til að litast um og gá hvort þið sjáið eitthvað sem höfðar til bragðlaukanna.

Katrín Sigurðardóttir