Samtök grænkera á Íslandi stuðla að jákvæðri ímynd og fjölgun grænmetisæta, standa vörð um hagsmuni þeirra og vinna að því að fjölga valkostum nauðsynja- og neysluvara án dýraafurða.


GANGA Í SAMTÖKIN

Eeeeertu…grænmetis…æta?

Ég heiti Sæunn og ég er grænmetisæta.

…þetta er sönn fullyrðing en ég tala samt aldrei svona.

 

Satt að segja tala ég ekki mikið um mataræði mitt nema ég sé spurð og flest fólk sem ég kynnist kemst ekki að því að ég sé grænmetisæta nema með því að borða með mér oftar en einu sinni og leggja smám saman tvo og tvo. Ég man ekki eftir að hafa skvett málningu á fínar frúr í pelsum og ég hef aldrei neitað að vera undir sama þaki og nautasteik. Ég man ekki hvenær ég sat síðast til borðs með öðru fólki án þess að horfa á neyslu dýraafurða en ég hef hvorki tekið dramaköst né efnt til skyndiáróðurs vegna þessa. Ofan á allt saman veit ég ekki til þess að ég sé grá á litinn eða vannærð og undir kjörþyngd. Semsagt…ótrúlega óspennandi, and-steríótípísk grænmetisæta.

Samt sem áður upplifi ég það stundum að vera sett í kastljós vannærða grashippans án samráðs eða tilefnis og þarf stundum að sitja undir mis-vingjarnlegu spurningaflóði. Til að fyrirbyggja misskilning vil ég taka fram að mjög margir sýna mataræði mínu kurteislegan áhuga og hafa raunverulega gaman af að fræðast nánar um val mitt og eðli lífsstílsins. Þeir eru samt háværari sem telja þetta með öllu heimskulegt, hættulegt, aumingjalegt, fáránlegt, ofstækisfullt, öfgakennt eða anorexíutengt. (Ég hef heyrt öll þessi orð og fleiri til notuð í þessu samhengi). Ég hef verið vöruð við yfirvofandi næringarskorti, sjúkdómum, átröskunum og hægu andláti ef ég láti ekki af þessum meintu afbrigðilegheitum, og einhver vildi meira að segja gera mig ábyrga fyrir bágum lífskjörum íslenskra sauðfjár- og kúabænda.

Að öllu jöfnu forðast ég að lenda í slíkum rökræðum, brosi og eyði umræðuefninu. Mér finnst samt kominn tími til að misskilningi og fordómum um grænmetisætur sé eytt og með það markmið hef ég ákveðið að tjá mig hér reglulega um ýmis málefni þessu tengdu.

Í þessum upphafspistli vil ég kasta fram algengum spurningum og svörum, en ég held að flestum spurningunum hafi ég svarað nokkur hundruð, ef ekki nokkur þúsund sinnum síðustu tvo áratugina, tæplega. Ég vil taka það skýrt fram að ég er ekki sérfróð um næringu og tala eingöngu af eigin reynslu og út frá uppsöfnuðum fróðleik sem ég hef aflað mér í gegnum árin.

 

Eeeeertu…grænmetis…æta? Já!

 

Síðan hvenær? Alveg frá því ég var sautján ára gömul. Ákvörðunina tók ég ellefu ára og steig skrefið þegar ég flutti að heiman og gat stjórnað neysluvenjum mínum sjálf.

 

Já, en af hverju? Af því að mig langar ekki að dýr þurfi að deyja til að seðja mitt hungur þegar þess gerist ekki þörf. Mér líður vel á grænmetisfæði og tel það henta mínum líkama betur. Í seinni tíð hef ég einnig séð sífellt fleiri rök fyrir því að minnkað kjötát í heiminum geti haft afar jákvæð áhrif á hnattræna hlýnun og önnur umhverfisvandamál, það geti sparað gríðarlegt magn af vatni og landi, stöðvað eyðingu regnskóga, auðveldað okkur að fæða sveltandi hluta mannkyns og komið í veg fyrir framtíðarvandamál sem eru fyrirsjáanleg vegna ósjálfbærrar neyslu mannkyns og eyðingu auðlinda. Þar að auki hef ég lesið mikið um heilsubætandi áhrif grænmetisfæðis og reynt sannleika þess á eigin skinni.

 

Þú segist vera vegan. Hvers konar grænmetisæta er það eiginlega? Vegan mataræði útilokar neyslu allra dýraafurða, þ.á.m. egg og mjólkurvörur. Fólk hefur tilhneigingu til að einblína á hvað vegan borðar ekki en ég vil frekar horfa á allt það sem ég hef úr að velja. Þannig er þetta ekki útilokun heldur opinberun og fjölbreytnin er alveg endalaus…í alvöru!

Vegan lífsstíll felst í því að takmarka notkun afurða úr dýrum eins og kostur er. Þ.á.m. notkun leðurs, snyrtivara og annarra vara sem innihalda dýraafurðir. Það væri alveg til að æra óstöðugan að lifa án nokkurrar snertingar við allar vörur sem innihalda snefil af dýraleifum en við veganar gerum okkar allra besta. Lengi vel taldi ég mér trú um að leður væri saklaus aukaafurð sem færi á sorglegan hátt til spillis ef ég gengi ekki úr skóm gerðu úr því en ég hef skipt um skoðun. Ég á því eitthvað af leðurskóm frá fyrri tíð en mun ekki kaupa mér svoleiðis framar.

 

Borðarðu þá ekki kjúkling? Neibb.

 

En fisk? Nei, fiskur er ekki grænmeti heldur.

 

ENGAR mjólkurvörur? …ekki einu sinni ost? Nei, engan mjólkurost en það eru til fínustu jurtaostar ef fólk er á þeim buxunum.

 

Eru þetta ekki aðeins of miklar öfgar? Mér finnst það einmitt alls ekki. Ég leitast við að borða sem hæst hlutfall af mat sem kemur beint úr náttúrunni á diskinn minn án frekari vinnslu. Eru ekki raunverulegu öfgarnar að fara þannig með hráefnin að þau séu hvorki lengur þekkjanleg í bragði eða sjón, hafi verið hituð, soðin eða unnin á annan hátt og svo blönduð við langan lista annarra efna, þ.á.m. rotvarnar-, litar- og bragðefna? Kona spyr sig.

 

En langar þig aldrei bara í sveittan búrger? Nei, aldrei nokkurn tímann. Þegar ég sé kjötvörur lít ég ekki á þær sem mat, ekki frekar en mér finnst ljósastaur vera matur. Ég held að sumir hafi sömu tilfinningu gagnvart grænmeti og ég get skilið það.

 

Er þetta ekki ótrúlega erfitt? Nei, ekki lengur. Fyrst vissi ég ekkert og hafði engan stuðning svo upphafsskrefin voru flókin og á köflum kjánaleg. Oft hef ég borðað mjólk, egg og fisk til að auðvelda mér félagslegar aðstæður og einfalda líf mitt en mér hefur alltaf liðið illa með það. Ég trúði lengi þeim boðskap að grænmetisfæði væri óæðri valkostur, próteinsnauður og skorti margt. Síðastliðið vor las ég mikið af fræðsluefni sem gaf mér loks þá fullvissu að ég gæti lifað góðu lífi til frambúðar án neyslu dýraafurða og á sama tíma hætti ég að leyna þeirri staðreynd að ég er fyrst og fremst grænmetisæta af dýraverndunarástæðum. Síðan þá hef ég ekki upplifað erfitt augnablik – ég held að það sé mikilvægt að þekkja og gangast við eigin sannfæringu því þá fær ekkert haggað manni.

 

Hvað borðar þú þá á jólunum? Bara það sem mig langar í hverju sinni. Fyrir mér hefur matur ekkert með jólin að gera og jólin ekkert með mat að gera. Einu sinni borðaði ég hrísgrjónarétt með sveppum á aðfangadagskvöld og það voru dásamleg jól. Stundum fæ ég mér hnetusteik og það er líka fínt. Fyrst og fremst vil ég að jólin snúist um kyrrð, slökun og hamingju. Mat get ég alltaf borðað og læt valið bara ráðast á síðustu stundu ef mér sýnist svo.

 

En hvaðan færðu eiginlega prótein? Úr grænmeti, korni, hnetum, fræjum og baunum. Ég fæ alveg nóg af próteini og þekki enga grænmetisætu sem hefur verið lögð inn á spítala vegna próteinskorts (og ég þekki ansi margar).

 

Já, en b12!? Það fæ ég úr næringargeri og gæti tekið inn í töfluformi ef þörf krefði.

 

Járn? Grænt grænmeti, rúsínur, döðlur o.m.fl. Jafnvel þó járnmagn í grænmetisfæði sé að meðaltali lægra en í kjötríku fæði þá kemur á móti að mjólkurneysla er ekki til staðar til að draga úr járnupptökunni.

 

Hvað með fitusýrur? Og lýsi kona, lýsi! Ég tek Omega 3 hylki daglega þar sem flestum heimildum sem ég hef lesið virðist bera saman um að Omega 3 fitusýrur skorti í fæðu bæði grænmetisæta og annarra. D vítamín tek ég líka þar sem við norðurhvelsbúar erum reglulega vöruð við skorti á því vegna sólarleysisins. Bæði Omega og D-vítamín fást án dýraafurða og ég passa mig á að leita uppi slíkar vörur.

 

Það hlýtur að vera óþolandi að bjóða þér í mat? Nei, gæti ekki verið einfaldara. Ferskt, brakandi salat með sólþurrkuðum tómötum dugar mér fullkomlega og niðurskornir ávextir með dökku súkkulaði í eftirrétt eru ekki flókin matargerð.

Í lokin vil ég þakka mér fyrir að veita mér viðtal og hvet lesendur til að kasta fram spurningum ef þeir svo óska. Netfangið mitt er saeunn@graenmetisaetur.is

Höfundur: Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir

Áður birt á innihald.is