Samtök grænkera á Íslandi stuðla að jákvæðri ímynd og fjölgun grænmetisæta, standa vörð um hagsmuni þeirra og vinna að því að fjölga valkostum nauðsynja- og neysluvara án dýraafurða.


GANGA Í SAMTÖKIN

Rannsókn mistúlkuð – veganismi kálar ekki náttúrunni

Frétt um skaðleg áhrif grænmetisfæðis á umhverfið hefur birst á mörgum fréttamiðlum í dag og því vilja Samtök grænmetisæta á Íslandi koma á framfæri eftirfarandi tilkynningu:

Umræddar fréttir fjalla um rannsókn á vegum Carnegie Mellon University sem á að hafa sýnt fram á að grænmetisfæði hafi skaðlegri áhrif á umhverfið en hefðbundið bandarískt mataræði. Þegar nánar er rýnt í rannsóknina kemur í ljós að sú ályktun er röng. Sá samanburður sem rannsakendur gera skoðar muninn á mismunandi samsetningu mataræðis samsettu úr bæði jurta- og dýraafurðum út frá vatnsnotkun og losun gróðurhúsalofttegunda á bak við hverja hitaeiningu. Hreint grænmetisfæði er hvergi mælt í rannsókninni en við samanburðinn eru skoðaðar þær tegundir grænmetis sem fæstar hitaeiningar hafa á móti þeim dýraafurðum sem hafa flestar hitaeiningar. Ef gengið er t.d. út frá því að manneskja sem hættir að borða beikon bæti þær hitaeiningar allar upp með neyslu á káli en slíkt væri með öllu óraunhæft. Í 100 grömmum af steiktu beikoni eru 513 hitaeiningar en aðeins 12 hitaeiningar eru í 100 grömmum af jöklasalati. Ef miðað er við forsendur rannsóknarinnar þyrfti að borða 43 kíló af salati fyrir hver 100 grömm af beikoni sem yrði sleppt.

Ef miðað er við forsendur rannsóknarinnar þyrfti að borða 43 kíló af salati fyrir hver 100 grömm af beikoni sem yrði sleppt.

604500438_8931070402_oVissulega er hægt að fallast á að ræktun slíks magns af káli geti hugsanlega krafist meiri vatnsnotkunar en framleiðsla 100 gramma af beikoni, en samanburðurinn er með öllu fráleitur. Að auki gerir samanburðurinn ráð fyrir aukinni neyslu mjólkurafurða og sjávarfangs sem að meðaltali hafa meiri mengandi áhrif en jurtafæði. Í samtali við Huffington Post segja rannsakendur að niðurstöðurnar séu ekki þær að grænmetisfæði sé meiri mengunarvaldur en dýraafurðir, heldur þær að SUMT grænmeti kosti meiri auðlindir en SUMT kjöt ef mælt er hitaeiningu fyrir hitaeiningu.

Það er fullljóst að enginn neytir orkusnauðs grænmetis sem aðalorkugjafa máltíða heldur er það fyrst og fremst meðlæti sem neytt er í litlu magni með orkuríkari fæðu á borð við baunir, korn, hnetur og fræ. Orkusnautt grænmeti hefur þó þann kost að bæta trefjum, vítamínum, steinefnum, andoxunarefnum og fjölda plöntunæringarefnum við máltíðina.

Framleiðsla dýra og afurða þeirra er óumdeilanlega einn versti mengunarvaldur heimsins og hafa Sameinuðu þjóðirnar t.a.m. gefið út skýrslu um mikilvægi þess að mannkynið dragi verulega úr neyslu dýraafurða til að sporna við áhrifum mengunar. Það er auðséð fyrir hvern þann sem skoðar málið að sú aðferðafræði að nota dýrin sem millilið fyrir orku og næringu er afskaplega kostnaðarsöm leið til að sjá mannkyninu fyrir mat. Einn nautgripur borðar og drekkur á hverjum degi margfalt meiri vökva og orku en ein manneskja gæti nokkurn tímann gert. Ef sama ræktarland og er notað til að fóðra gripinn væri nýtt til að rækta jurtafæði til manneldis næðist fram umtalsvert betri nýting vatns og lands. Dýrið þarf svo að lifa í einhverja mánuði eða ár áður en það og/eða afurðir þess eru nýttar til matar, en alla þess stuttu ævi skilar það frá sér gríðarlegum úrgangi – m.a. metangasi – sem veldur þannig mikilli mengun til viðbótar.

Gylta á íslensku svínabúi.

Gylta á íslensku svínabúi.

Þar sem framleiðsludýr til manneldis eru jurtaætur er það einfaldlega reikningsdæmi sem ekki gengur upp að halda því fram að jurtafæði sem maður neytir beint af akrinum sé meiri mengunarvaldur en ef sama hráefni væri unnið í gegnum líkama dýrs, dag eftir dag, mánuð eftir mánuð áður en dýrinu er slátrað til neyslu.

Loks má benda á að í inngangi þeirrar rannsóknar sem hin villandi frétt byggir á er bent á að rannsóknir hafi sýnt fram á að í Evrópu dragi neysla jurtafæðis verulega úr umhverfismengun, en það staðfestir yfirgnæfandi meirihluti þeirra vönduðu rannsókna sem gerðar hafa verið.
Samtök grænmetisæta á Íslandi hvetja fjölmiðla til vandaðs fréttaflutnings um umhverfisáhrif matvælaiðnaðarins og benda áhugasömum lesendum á hina metnaðarfullu heimildarmynd, Cowspiracy, sem fjallar ítarlega um málið.

Sóknaráætlun ríkisstjórnar Íslands í loftslagsmálum

Samtök grænmetisæta á Íslandi fagna því framtaki ríkisstjórnar Íslands að blása til sóknar í loftslagsmálum. Nauðsynlegt er fyrir komandi kynslóðir að hið opinbera jafnt sem fyrirtæki og einstaklingar taki tafarlaust höndum saman til að draga úr mengun og vinni gegn áhrifum hennar. Allir þættir sóknaráætlunar sem kynntir voru í dag, 25. nóvember 2015, eru mikilvæg og verðug verkefni. Samtökin vilja hins vegar vekja athygli á því að í áætlunina vantar einn stærsta áhrifaþáttinn í losun gróðurhúsalofttegunda.

Þekkt er að framleiðsla dýra og afurða þeirra er stærsti skaðvaldur heimsins er kemur að umhverfismengun. Allt frá ræktun dýranna til framleiðslu afurða þeirra hefur í för með sér meiri losun gróðurhúsalofttegunda en nokkur annar iðnaður. Allar samgöngur heimsins á sjó, lofti og jörðu niðri gefa frá sér minna magn þessa efna en landbúnaðurinn. Víða hefur verið vakin athygli á mikilvægi þess að stýra neyslu einstaklinga meira í átt að jurtafæði og draga úr neyslu kjöts og annarra dýraafurða, m.a. í skýrslu Sameinuðu þjóðanna árið 2010. Því má ljóst vera að til viðbótar við þau verkefni sem þegar hafa verið kynnt er áríðandi og nauðsynlegt að ríkisstjórn Íslands hugi að aðgerðum til að styðja við aukna framleiðslu og neyslu á grænmeti og öðru jurtafæði, svo sem ávöxtum, baunum, hnetum, fræjum og korni.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar frá árinu 2012 um útstreymi lofttegunda sem valda gróðurhúsaáhrifum (nánari upplýsingar) nam losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi frá öllum samgöngum og annarri eldsneytisbrennslu 870.000 tonnum en samanlögð losun landbúnaðar og fiskveiða var rúmum 33% meiri eða 1.168.000 tonn. Að auki olli losun þurrkaðs lands eða framræst mólendi tvöfalt meiri losun en öll önnur losun hér á landi, en mestur hluti þessa er vegna túngerðar fyrir landbúnað. (RÚV, Kastljós, miðvikudaginn 18. nóvember).

Samtök grænmetisæta á Íslandi hvetja almenna neytendur til að styðja markmið um umhverfisvernd með því að draga úr neyslu dýraafurða og auka hlutfall fæðu úr jurtaríkinu. Ennfremur hvetja samtökin til þess hið opinbera láti gera áreiðanlega og nákvæma útreikninga sem sýni óyggjandi samanburð á mismunandi valkostum í fæðuvali á Íslandi. Nauðsynlegt er fyrir hinn almenna neytanda að geta borið saman kolefnisfótspor dýra- og jurtaafurða, bæði innlendrar framleiðslu og innfluttrar.

Umfjöllun um dýraníð í fjölmiðlum

Samtök grænmetisæta á Íslandi fagnar nýlegri umfjöllun um dýraníð á íslenskum svína-, kjúklinga- og nautgripabúum. Mörgum sárnar að sjá áverkana sem dýrin hafa hlotið vegna slæmrar aðstöðu þeirra og heyrast háværar raddir um að fá að vita á hvaða búum verstu tilvikin voru.

Besta leiðin til að forðast að styðja við þetta dýraníð er að velja þann kost að borða ekki dýr og afurðir þeirra. Vert er að nefna að á öllum svínabúum sem skoðuð voru fundust gyltur með legusár!

Þakka ber sérstaklega fréttastofu RÚV fyrir eftirfarandi fréttir.

Þrengsli, for og bleyta á nautgripabúum.

Brunasár á kjúklingum.

Sprenging í ábendingum um illa meðferð á dýrum

„Velferð dýra er fórnað“

Allt að önnur hver gylta með legusár

Þrengsti básinn innan við 50 cm breiður

Íslensk svín á alltof þröngum básum

Myndir úr grillsveislu Samtaka grænmetisæta á Íslandi

Laugardaginn 15. ágúst var haldin heljarinnar vegan pylsu-grillveisla í Hellisgerði í Hafnarfirði.

Mætingin fór fram úr björtustu vonum og seldust allar pylsur dagsins upp á skot stundu, og því nokkuð víst að þetta verður árlegur viðburður samtakanna.

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá grillveislunni:

IMG_6988 IMG_6941 IMG_6971 IMG_6964 IMG_6950 IMG_6940 IMG_6965 IMG_6993

Grillveisla í Hellisgerði.

Samtök grænmetisæta á Íslandi efna til grillveislu laugardaginn 15. ágúst. Veislan fer fram í Hellisgerði í Hafnarfirði og hefst klukkan 14.00. Grillveislan er opin öllum og stoppar strætóleið 1 rétt hjá svæðinu.

Hægt verður að fá vegan pylsur með öllu ásamt lífrænu gosi á 500kr og gæða sér á hnetu- og ávaxtanarti í boði Sólgætis.

Gestir eru beðnir að taka með sér reiðufé þar sem enginn posi verður á staðnum. Hraðbankar eru hins vegar í stuttri göngufjarlægð frá garðinum, í Landsbankanum Fjarðargötu og Íslandsbanka Strandgötu.

Pylsurnar verða frá vörumerkinu Veggyness sem ást & bygg flytur inn. Þær verða í grófu Nettó pylsubrauði og auk annars meðlætis verður hægt að fá sér Naturata remúlaði sem Yggdrasill heildsala flytur inn. Lífræna gosið verður Whole Earth gos frá Heilsa.

 

Ný stjórn og viðurkenningar samtaka grænmetisæta

Á aðalfundi samtakanna síðastliðinn fimmtudag var farið yfir verkefni og árangur síðasta árs og ýmis mál rædd. Kosið var um hvatningarviðurkenningar samtakanna í ár og ný stjórn kjörin.

Tveir einstaklingar hljóta hvatningarviðurkenningu sem afhentar verða á næstunni. Það eru Linnea Hellström fyrir brautryðjendastarf í vegan matargerð á íslenskum veitingastöðum og Ragnar Freyr fyrir vefsíðuna Vegan Guide to Iceland.

Passion bakarí og Nettó fá einnig viðurkenningar fyrir vöruþróun og stóraukið vöruval fyrir grænmetisætur.

Ný stjórn samtakanna er skipuð eftirfarandi:

Sigvaldi Ástríðarson var endurkjörinn formaður

Hrafnhildur Vera Rodgers ritari

Sara Ingvarsdóttir gjaldkeri

Sæunn I. Marinósdóttir upplýsingafulltrúi

Anna Lilja Karlsdóttir meðstjórnandi

Arna Sigrún Haraldsdóttir meðstjórnandi

Íris Auður Jónsdóttir meðstjórnandi

Lowana Veal meðstjórnandi

Magnús Reyr Agnarsson meðstjórnandi

Ragnar Freyr Pálsson meðstjórnandi

Fráfarandi stjórnarmeðlimir eru Helga María Ragnarsdóttir og Lísabet Guðmundsdóttir. Við þökkum þeim vel unnin störf og ánægjulegt samstarf.

Vegan Valkostir í meira úrvali

Í dag fengu samtök grænmetisæta eftirfarandi fréttatilkynningu frá stórversluninni IKEA hér á íslandi:

“Í dag hefst sala á nýju grænmetisbollunum í IKEA. Bollurnar eru næsta skrefið í átt þeirrar stefnu fyrirtækisins að bjóða upp á breiðara úrval af hollari matvælum sem ræktuð eru á sjálfbærari hátt. Grænmetisbollan er eingöngu úr grænmeti og hentar þeim sem aðhyllast veganisma. Hún er umhverfisvænn kostur sem hefur til dæmis mun minna kolefnisfótspor en sænska kjötbollan okkar. Þessi þróun er náttúrulegt skref fyrir IKEA, þar sem öll starfsemi byggir á grunnhugmyndinni um að gera daglegt líf þægilegra fyrir sem flesta. “

Þetta eru ekki einu góðu fréttirnar úr heimi grænmetisæta hér á landi, því nýverið hófu bæði Hagkaup og Bónus að selja jógúrt sem hentar vegan fólki. Vegan ostur er nú í boði frá Mamma veit best (fæst einnig í Fjarðarkaup) í viðbót við nokkrar tegundir til viðbótar í Nettó, Hagkaup og öðrum verslunum. Við það bætast betri vegan/grænmetisætu merkingar hjá fyrirtækjum út um allt land.

Þetta endar ekki hér því að von er á enn fleiri valkostum fyrir vegan fólk um allt land og munum við halda áfram að kynna ykkur þá þegar nýjar fréttir berast.

Velkomin á nýja vefsíðu Samtaka grænmetisæta!

Samtök grænmetisæta á Íslandi hafa opnað nýja og langþráða vefsíðu samtakanna í dag, síðasta dag vel heppnaðs Veganúar! Hér má meðal annars finna ýmiss konar fróðleik fyrir nýgræðinga og lengra komna í grænmetishyggjunni ásamt ýmiss konar ráðleggingum fyrir veitingastaði og framleiðendur sem vilja þjóna grænmetisætum með betri og skilvirkari hætti.

Stjórn Samtaka grænmetisæta á Íslandi þakkar þeim fjölda fólks sem hefur lagt hönd á plóg við vefsmíði, skrif og öflun efnis. Markmiðið er að þessi vettvangur muni vaxa og dafna á næstu misserum og að hér verði virk og fjölbreytt umfjöllun um allar hliðar grænmetishyggjunnar. Við hvetjum því allar grænmetisætur til að senda inn áhugavert efni og ábendingar.

Til hamingju kæru félagsmenn, grænmetisætur og velunnarar!

Vegan valkostir í Passion bakarí um helgina

Vegan helgi hófst í morgun og stendur fram á sunnudag – fjölmennum, njótum og styðjum þetta skemmtilega framtak!

Hér að neðan má sjá tilkynningu af fésbókarsíðu bakarísins:

Vegan Helgi í Passion

Þessa helgina verður Passion með meira úrval af vegan sætabrauði.

Vegan þýðir að ekkert af þessum vörum eru með dýraafurðum í og hentar þá vel fyrir þá sem eru með mjólkuróþol eða ofnæmi fyrir eggjum.

Það sem verður í boði:

  • Sérstakt vegan croissant.
  • Vegan snúðar með súkkulaði.
  • Hjónabandssæla.
  • Heilsuklatti með súkkulaði.
  • Hnetuklatti með súkkulaði.
  • En svo verðum við auvðitað með gamla góða Spelt rúgbrauðið og Súrdgeisbrauðin sem henta vegan.

Gleðin byrjar núna föstudagsmorguninn.

Grænmetissulta með matarlími

Samtök grænmetisæta fagna allri nýsköpun sem snýr að auknu framboði grænmetisfæðis og það er mikið gleðiefni að meira að segja kjötframleiðendur séu farnir að huga að þessum hratt vaxandi hópi neytenda.

Grænmetissulta hefur verið sett á markað sem valkostur við hefðbundinn þorramat og að gefnu tilefni vilja samtökin benda á að varan inniheldur matarlím. Umrædd vara hentar því ekki grænmetisætum og vegan þar sem matarlím (öðru nafni gelatín) er unnið úr sinum og beinum og öðrum líkamsleifum spendýra.

IMG_3689