Samtök grænkera á Íslandi stuðla að jákvæðri ímynd og fjölgun grænmetisæta, standa vörð um hagsmuni þeirra og vinna að því að fjölga valkostum nauðsynja- og neysluvara án dýraafurða.


GANGA Í SAMTÖKIN

Gestgjafinn og grænmetisætan

Það er gaman að bjóða í mat, og ennþá skemmtilegra þegar tilefnið er stórt á borð við fermingu, brúðkaup eða skírn. Með framförum í næringar og læknisfræði og bættu úrvali matvöru eru fleiri en áður sem kjósa að neyta ekki ákveðinna fæðutegunda. Fyrir þessu kunna að liggja ýmsar ástæður, til dæmis fæðuóþol eða einfaldlega val.

Flest viljum við koma til móts við gestina okkar og sýna þessum óskum virðingu, því að það er gaman að vera góður gestgjafi. Hann er sterkur, þráðurinn sem tengir okkur við kynslóðirnar á undan, sem töldu heiður hússins að veði ef gesturinn gat ekki eða vildi ekki borða það sem var á boðstólum. Svo að ég tali ekki um þá skömm sem fylgdi ef maturinn kláraðist.

Sumir sælkerar fyllast kvíða þegar von er á grænmetisætu eða vegan í mat eða veislu. Eða gleyma því jafnvel að viðkomandi sé til.

Sumir sælkerar fyllast kvíða þegar von er á grænmetisætu eða vegan í mat eða veislu. Eða gleyma því jafnvel að viðkomandi sé til. Vona jafnvel að þessi gestur geti látið sig hafa dýraafurðir í þetta eina skipti. Kannski getur hann, hán eða hún bara borðað meðlætið. Má bjóða upp á ost?

Í grunninn er þetta spurning um ábyrgð og hvar hún liggur. Gestgjafinn tekur ábyrgð á boðinu, svo langt sem sú ábyrgð nær. Hann sér til þess að boðið komist á réttan stað og gesturinn viti hvert hann á að fara, hvenær hann á að mæta og jafnvel hvers konar klæðnaður sé við hæfi, eða þema. Þetta gengur yfirleitt vandræðalaust fyrir sig, og ef gestur mætir pínulítið seinn, eða ekki í rétta þemanu, er það látið óáreitt. Svona á betri bæjum að minnsta kosti. Sumir gestgjafar, og undirrituð meðtalin, spyrja gjarnan gestina um fæðuóþol eða hvort að þau hafi aðrar óskir í sambandi við matinn. Þetta er auðvelt að gera þegar um lítið matarboð er að ræða, til dæmis heimboð í kvöldverð <10 manns. Einnig er ágætt fyrir vegan/grænmetisætur að temja sér einfaldlega að láta gestgjafann bara vita um leið og tekið er á móti boðinu. Ef veislan er stærri, til dæmis hundrað manna brúðkaupsveisla eða ferming, þá vandast málið.

Gesturinn ber ábyrgð á sjálfum sér, með öllu sem fylgir því að vera góður gestur. Ef gestur hefur fengið boð í stóra matarveislu þá er sjálfsagt að hann láti sjálfur vita ef hann borðar ekki það sem flestir skilgreina sem hefðbundinn veislumat. Yfirleitt er hægt að notast við símanúmerið á boðskortinu í þessum erindum.

Ef gestur hefur fengið boð í stóra matarveislu þá er sjálfsagt að hann láti sjálfur vita ef hann borðar ekki það sem flestir skilgreina sem hefðbundinn veislumat. Yfirleitt er hægt að notast við símanúmerið á boðskortinu í þessum erindum.

Þetta er ekki dónaskapur eða tilætlunarsemi, heldur mjög eðlilegur hluti af því að vera mannlegur. Gesturinn getur líka kosið að spara sér umstangið og koma með eigin mat. Þetta er sniðugt að gera ef boðið er upp á hlaðborð, til dæmis í fermingum, en ekki matseðil þar sem gestgjafi hefur borgað fyrir hvern disk (árshátíðir hafa oft þennan háttinn á). Ef boðið er upp á matseðil, þá er sjálfsögð kurteisi að láta vita. Ef um er að ræða veisluþjónustu sem framreiðir fyrir hvern og einn, þá hefur veisluþjónustan yfirleitt þann háttinn á að spyrja gestgjafann hvort að einhverjir í hópnum séu grænmetisætur eða vegan. Ef gestgjafinn hefur ekki fengið upplýsingar um það þá endar ábyrgð hans þar.

Þetta er alls ekki flókið, en er flækt mörgum sinnum á ári úti um allt land, þar sem bæði gestgjafar og gestir sitja uppi með fullkomlega tilhæfulaust samviskubit vegna þess að ábyrgðin var ekki nógu skýr.

Að lokum, nokkur atriði fyrir gestgjafa grænkerans:

1. Grænmetisætan eða vegan er ekki komin í boðið til þess að dæma kjötæturnar.

2. Ef þú ert í vafa, spurðu bara hvort að grænmetisætan eða vegan borðar þetta eða hitt (t.d. er ostur í lagi?). Það er ekki dónaskapur.

3. Fæstar grænmetisætur eða vegan eru alltaf (24/7) til í að tala um kosti þess að vera grænmetisæta eða vegan, eða í stuði fyrir fyrirlestur upp úr grein sem þú last á netinu um vítamínskort hjá grænkerum. Viðkomandi spyr þig að sama skapi ekki í sífellu hversvegna þú ákveður að borða kjöt. Ég get ekki talað fyrir allar grænmetisætur en ég er sjálf orðin dálítið þreytt á því að þurfa að bæði ræða og “verja” það að vera grænmetisæta í boðum sem ég sæki.

Ég vona að þessi listi komi einhverjum að gagni og ég óska þér og þínum grænu vinum góðrar skemmtunar í veislunni!

Eva Bjarnadóttir

Skrifað af: Nínu Salvarar

Nína Salvarar er ástríðukokkur, kvikmyndagerðarkona, rithöfundur og sagnfræðinemi. Hún er búsett í Reykjavík með sambýlismanni og dóttur.