Samtök grænkera á Íslandi stuðla að jákvæðri ímynd og fjölgun grænmetisæta, standa vörð um hagsmuni þeirra og vinna að því að fjölga valkostum nauðsynja- og neysluvara án dýraafurða.


GANGA Í SAMTÖKIN

Hvað er hráfæði?

Til eru margar mismunandi skilgreiningar á hráfæði.

Flestir sem hafa gert hráfæði að lífsstíl borða eingöngu hráa fæðu úr jurtaríkinu. Þó eru einnig til afbrigði þar sem menn velja að borða hráar dýraafurðir í bland, eins og t.d. mjólkurvörur, egg, hunang og blómafrjókorn (e. bee pollen).

Í meginatriðum gengur hráfæði þó útá að matreiða hráefni eins og grænmeti, ávexti, hnetur, fræ, korn og sjávargróður án þess að hita upp fyrir 47°C. Þetta er gert til þess að varðveita ensímin, vítamínin og steinefnin sem eru í matnum.

Þeir sem aðhyllast hráfæði vilja meina að hluti af ensímunum (sérstaklega jurtaensímin) lifi af súra umhverfið í maganum og geti því komið að gagni við meltingu matarins áfram. Ensími eyðileggjast við 47°C og þess vegna er lögð áhersla á að hita matinn ekki upp fyrir það hitastig. Þá er hugsunin sú að ensímin sem eru til staðar í matnum hjálpi líkamanum við meltinguna. Í raun melti maturinn sig að hluta til sjálfur og minnki þar með álagið á líkamann sem hafi þá meiri orku til þess að sinna viðhaldi og uppbyggingu.

Margir velja að framreiða hluta af matnum sínum á þennan hátt, borða t.d. 70% hráfæði og 30% eldað. Það er mjög misjafnt hvað hentar hverjum og einum best. Skynsamlegt er fyrir þá sem hafa hug á því að prófa 100% hráfæði að kynna sér ráðlagða dagsskammta af næringarefnum, því þegar gerðar eru stórar breytingar á mataræði, sama í hvaða átt þær eru, þá er gott að vita hvað maður er að gera. Flestir vita að gamla mýtan um að við þurfum kjöt til þess að fá prótein stenst náttúrulega ekki, en það er samt gott að vita hvaðan próteinin okkar koma, hvort sem við fáum þau úr hnetum, fræjum, möndlum og spírum, eða baunum og korni eða mjólkurvörum.

Lifandi fæði

Lifandi fæði er hugtak sem menn rugla oft saman við hráfæði, en er ekki það sama. Dr. Ann Wigmore er oft kölluð móðir lifandi fæðis. Hún lagði áherslu á (eins og í hráfæði) að fæðan væri ekki hituð upp fyrir 47 °C til að varðveita ensímin. Hún vildi meina að við þyrftum að hjálpa kroppnum að melta matinn og mælti því með að hráefnið væri sett í blandara, eða væri sýrt eða gerjað. Hún notaði mikið rejuvelac, sem á íslensku er kallaður kornsafi, til að aðstoða meltinguna. Kornsafinn er bruggaður með spíruðu korni og inniheldur mikið af ensímum. Þá lagði hún einnig áherslu á að hnetur og fræ væru lagðar í bleyti fyrir notkun og jafnvel látnar spíra til þess að aflétta dvalahömlunum og lífga fræið við. Þá virkjast ensímin og geta auðveldað kroppnum að vinna næringuna úr fræinu.

Dr. Ann var mikill frumkvöðull á sviði óhefðbundinna lækninga. Hún var áhugasöm um ódýrar leiðir til þess að tryggja næga næringu. Hún einbeitti sér að því að láta rannsaka þá þætti sem hún taldi að hefðu mikil áhrif á heilsuna. Eitt af því voru spírur. Þær voru henni hugleiknar sökum þess hversu mikla næringu er hægt að fá úr litlu hráefni. Hún vann með færum vísindamönnum að rannsóknarverkefnum um spírur. Þau komust m.a. að því að næringin allt að tífaldaðist í fræinu/korninu/bauninni við spírun. Hún lagði líka ríka áherslu á að nota alltaf fyrsta flokks hráefni og hafa fræ/korn/baunir lífrænt ræktuð.

Textinn er fenginn frá Sólveigu Eiríksdóttur