Samtök grænkera á Íslandi stuðla að jákvæðri ímynd og fjölgun grænmetisæta, standa vörð um hagsmuni þeirra og vinna að því að fjölga valkostum nauðsynja- og neysluvara án dýraafurða.


GANGA Í SAMTÖKIN

Korn

Við erum svo heppin að hafa aðgengi að allskonar næringarríkum korntegndum hér á landi. Þó svo að ræktun hafi að mestu einskorðast við bygg og hveiti þá þekkja allir rúg, hafra, hirsi og hrísgrjón. Á síðustu áratugum hafa líka skotið upp kollinum nýir næringarríkir félagar eins og kínóa og amaranth. Þessi korn eru í rauninni fræ sem líta út eins og litlir satúrnusar: litlir hnettir með fíngerðan hring um sig miðja. Kínóa á rætur sínar að rekja til Andesfjalla og spilaði stórt hlutverk í mataræði og næringu Inkanna, en amaranth, sem lítur út eins og litli frændi kínóa, var undirstöðu fæða Aztekanna.

Amaranth og kínóa eiga það sameiginlegt að hafa fallið í gleymsku eftir að nýlenduherrar bönnuðu ræktun á þeim. Þau lifðu þó af sem illgresi og nú eru þau orðin vinsæl aftur, og þá sérstaklega vegna þess hvað þau eru næringarrík. Þau eru glútenlaus en afar góðir próteingjafar því þau innihalda amínósýruna lysine í nægu magni, sem flestar korntegundir skortir.

Hægt er að nota kínóa á svipaðan hátt og hrísgrjón í flesta rétti, t.d. buff eða salöt. Einnig er það frábært í morgungrauta, brauð, pönnukökur og fleira. Vegna þess hve lítil amaranth kornin þykir gott að nota þau með öðru korni, t.d. útí hafragraut til að auka næringargildi hans.

 

Hér eru leiðbeiningar um hvernig best er að sjóða nokkrar algengar korntegundir:

Kínóa

1 dl kínóa

2 dl vatn

smá sjávarsalt, himalayasalt eða tamarisósa

Skolið kínóað, setjið í pott með vatni og salti. Látið suðuna koma upp og sjóðið í um 20 mínútur við lægsta hitastig sem viðheldur suðunni. Slökkvið undir og látið standa í 5-10 mínútur.

 

Amaranth

Sama aðferð og við að sjóða kínóa.

 

Hýðishrísgrjón

1 dl hýðishrísgrjón

2 dl vatn

smá sjávarsalt, himalayasalt eða tamarisósa

Skolið hrísgrjónin og setjið þau í pottinn ásamt vatni og salti. Látið suðuna koma upp og látið bullsjóða í um 5 mínútur. Lækkið þá hitann og látið sjóða í 30-45 mínútur, eða þar til hrísgrjónin hafa sogið í sig allan vökvann. Slökkvið þá undir og látið standa í 10 mínútur.

 

Bygg

1 dl bygg

2,5 dl vatn

smá sjávarsalt, himalayasalt eða tamarisósa

Skolið bankabyggið, setjið í pott með vatni og salti. Látið suðuna koma upp og sjóðið í um 30-40 mínútur eða þar til byggið er soðið. Slökkvið undir og látið standa í um 10 mínútur.

 

Hirsi

1 dl hirsi

2 dl vatn

Smá sjávarsalt, himalayasalt eða tamarisósa

Skolið hirsið og setjið í pott með vatni og salti. Sjóðið í um 20-25 mínútur, slökkvið svo undir og látið hirsið standa í um 10 mínútur.

 

 

Heilir hafrar

1 dl heilir hafrar

2,5 dl vatn

smá sjávarsalt, himalayasalt eða tamarisósa

Skolið hafrana, setjið í pott með vatni og salti. Látið suðuna koma upp og sjóðið í 45-60 mínútur eða þar til hafrarnir eru soðnir. Slökkvið svo undir og látið standa í um 10 mínútur.