Samtök grænkera á Íslandi stuðla að jákvæðri ímynd og fjölgun grænmetisæta, standa vörð um hagsmuni þeirra og vinna að því að fjölga valkostum nauðsynja- og neysluvara án dýraafurða.


GANGA Í SAMTÖKIN

Brynjuís

Ný stjórn og hvatningarverðlaunin 2017

Aðalfundur SGÍ var haldinn 20. september síðastliðinn og þar var ný stjórn kosin. Nýr formaður samtakanna er Benjamín Sigurgeirsson. Gjaldkeri er Sigvaldi Ástríðarson, ritari Vigdís Andersen og meðstjórnendur eru Arna Sigrún Haraldsdóttir, og Lowana Veal.

Einnig var Valgerður Árnadóttir ráðin framkvæmdastjóri samtakanna en framkvæmdastjóri mun sinna starfi upplýsingafulltrúa ásamt fræðslu og skipulagi á viðburðum félagsins.

Það var kosið um hin árlegu hvatningarverðlaun samtakanna og hljóta tvö fyrirtæki verðlaunin í ár: Krónan og Brynjuís. Krónan hlýtur verðlaunin fyrir að hafa á undanförnum árum stóraukið úrval af vegan vörum og hefur Krónan sannarlega kynnt landsmönnum fyrir úrvals vegan matvöru og var það einróma álit stjórnar að Krónan væri með eitt besta vöruúrval stórverslanna á Íslandi fyrir grænkera. Brynjuís hlýtur einnig verðlaun fyrir afbragðs þjónustu við grænkera en Brynjuís býður nú upp á tvær mismunandi jurta-ístegundir úr vél (soja- og kókosís) og fjölbreytt úrval sælgætis með vegan merkingum til að búa til ljúffenga bragðarefi og aðra ísrétti. Með hvatningarverðlaununum senda samtökin þessum fyrirtækjum bestu þakkir fyrir að stuðla að auknu og bættu úrvali fyrir grænkera.

Margt spennandi er á döfinni hjá samtökunum og hefur ný stjórn þegar hafist handa við að takast á við þau mörgu og krefjandi verkefni sem framundan eru. Þar má nefna Veganúar, fræðsluerindi í framhaldsskólum, pálínuboð og fleiri viðburði.