Samtök grænkera á Íslandi stuðla að jákvæðri ímynd og fjölgun grænmetisæta, standa vörð um hagsmuni þeirra og vinna að því að fjölga valkostum nauðsynja- og neysluvara án dýraafurða.


GANGA Í SAMTÖKIN

„Til hvers erum við þá með vígtennur?“

Eins og ég hef áður minnst á finnst sumu fólki einstaklega skemmtilegt sport að rökræða við mig þann lífsstíl sem ég hef valið mér. Ok, ég skal orða þetta nákvæmar: fólki finnst einstaklega skemmtilegt sport að rökstyðja fyrir mér hvers vegna lífsstíll minn er rangur, vitlaus og muni draga mig til ótímabærs, næringarskerts dauða. Stundum held ég að allir og amma þeirra séu með doktorsgráðu í næringarfræði miðað við þá botnlausu næringarviskubrunna sem ganga hér um stræti og torg. (ekki það að ég sé neinn sérfræðingur sjálf).

 

Dæmigerð viðbrögð hjá mér eru þá gjarnan í þá áttina að ég brest í örvæntingarfullan grát, steyti hnefana dramatískt í átt að næsta rigningarskýi og öskra út í tómið „WHYYYYY? WHYYYYYY?!!!“ (Afsakið sletturnar, ég lærði dramatækni mína úr útlenskum bíómyndum). Svo gríp ég örvæntingarfull um axlir viðmælandans, horfi á hann með trylltu bliki í augunum og bið hann (öskrandi) að gefa mér beikon áður en það verður um seinan. Svo fer ég á Atkins og hætti að borða banana.

 

vigtennur1

Djók.

 

Mér er í alvörunni ekki „viðbjargandi“. Ég er og verð grænmetisæta alveg sama hvaða rök ég heyri gegn því vali. Svona er ég nú kaldrifjuð – ekkert…EKKERT…fær haggað þeirri ákvörðun minni að borða ekki dýr.

Ein algengustu rökin sem ég heyri gegn kjötleysi eru þau sem titill þessarar greinar vísar í: „Fyrst við erum með vígtennur þá erum við augljóslega hönnuð til að borða kjöt“.

 

Ok. Sko:

Í fyrsta lagi er mér alveg sama hvort mannslíkaminn er „hannaður“ til að borða kjöt eða ekki.

Í öðru lagi held ég að mannslíkaminn sé ekki hannaður til að borða kjöt.

Í þriðja lagi þá finnst mér það hvort sem er ekki koma málinu við.

 

Af hverju? –jú, ég er t.d. ekki með svona tennur:

vigtennur2

…og mér finnst ég ekki með góðri samvisku geta kallað þetta vígtennur:

 

vigtennur3

 

Og! –jafnvel þó sýnt yrði fram á með óyggjandi hætti að jú, við hefðum raunverulega vígtennur og værum sannarlega hönnuð til að borða kjöt, þá eru ótal dæmi þess að fólk geti lifað mjög góðu lífi án þess. Þess vegna finnst mér það algjör óþarfi og tímasóun að rífast um hverju hellisbúar nærðust á eða hvað mannslíkaminn var hannaður til að gera fyrir svakalega mörgum árþúsundum síðan. (ég verð að skjóta því inn í að mér líkar illa þessi sköpunarkenningarlega pæling um hönnun líkamans – en látum það liggja milli hluta).

Miðað við það sem ég veit um vígtennur og górillur (þær eru grænmetisætur) og Darwin og bíla (ekkert) og framvirka vaxtaútreikninga (helling), hef ég hins vegar sett saman mjög óvísindalega tilgátu:

Ef ég ímynda mér að ég ætti að lifa af kjötáti í umhverfi þar sem ég hefði engan aðgang að áhöldum, eldi eða vopnum (eins og fornir forfeður okkar), en lifandi dýr væru allt um kring þá sé ég fyrir mér afskaplega hlægilega baráttu. Segjum sem svo að mér takist að veiða og drepa svín á tveimur jafnfljótum og með berum höndum. Ætla ég þá næst að naga það hrátt? Narta með meintum vígtönnum í gegnum húð þeirra og slafra í mig hrátt, blóðugt holdið. Svona frumstætt, orginal svína-carpaccio. Namm! Ég sé mig í anda sveifla mér á milli trjáa og reyna að drepa grísi með því að t.d. hlunka mér ofan á þá eða hvernig þeir myndu kannski draga mig í forinni þar sem ég héldi trylltu morðtaki um sjötíu kílóa hálsinn á þeim, glorhungruð og æst. (ekki samt fara út í að hanka mig á vísindalegum staðreyndum um þyngd svínahálsa, þeir eru kannski ekkert sjötíu kíló í alvörunni)

Ég gæti að vísu leyst veiðivandann með því að vera hrææta en það er væntanlega ansi mikil samkeppni í þeim geira og báðar sögurnar enda með mjög hugsanlegri svæsinni matareitrun.

Á einhverjum tímapunkti lærði maðurinn hins vegar – augljóslega – að snúa kjötátsmálinu sér í hag og tókst að veiða og nýta kjöt annarra dýra án þess að eitra alvarlega fyrir sjálfum sér í leiðinni. Sumir segja að þau tímamót hafi markað upphaf þróunar nútímamannsins og kannski er það rétt. Smám saman hefur mannkynið óhjákvæmilega aðlagast kjötátinu í gegnum þróun og náttúruval svo við sem dýrategund meltum og nýtum það alveg örugglega betur en fyrsti maðurinn sem fékk þá hugdettu að borða dauða gasellu og fékk síðan vandræðalega magapínu. Eftir aldalanga aðlögun finnst mér líklegt að niðurstaða þessa alls – núlifandi kynslóðir – séu þar af leiðandi einhvers konar allt-og-ekkert-ætur. Við erum ófullkomnar kjötætur eins og sést bersýnilega ef við berum líkamsstarfsemi og meltingu okkar saman við örlaga-kjötætur á borð við kattardýr. Kannski erum við líka að einhverju leyti ófullkomnar jurtaætur, sérstaklega á norðurhveli jarðar þar sem kjöt hlýtur lengi að hafa verið mun hærra hlutfall fæðunnar en á suðrænni slóðum.

 

vigtennur4

 

Mín eigin persónulega niðurstaða er sú að ekkert af þessu skipti nokkru máli því ég get lifað afskaplega góðu lífi án kjöts og þannig líður mér best. Það þýðir ekkert að reyna að sannfæra mig um að náttúran ætli mér annað því mér er alveg sama hvort það er rétt eður ei.

Ég er grænmetisæta vegna þess að ég get það. Fleiri ástæður þarf ég ekki.

Höfundur: Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir

Áður birt á innihald.is