Samtök grænkera á Íslandi stuðla að jákvæðri ímynd og fjölgun grænmetisæta, standa vörð um hagsmuni þeirra og vinna að því að fjölga valkostum nauðsynja- og neysluvara án dýraafurða.


GANGA Í SAMTÖKIN

Tyson og hinir grashipparnir

Fólk hefur stundum mjög ákveðnar hugmyndir um hvernig grænmetisætur eru eða geta alls ekki verið. Algengasta steríótýpan sem ég heyri fólk tala um er þrjátíu kílóa, gráhærði, næringarskerti hippinn í Birkenstock sandölunum, nartandi í lífrænan pappa og kjökrandi yfir óréttlæti heimsins. Illa lyktandi og persónuleikalaus. Með flösu. Og bauga!

 

Af ósvífni minni virðist ég hafa dulbúið mig sérlega vel og því vekur það undrun margra að komast að því að ég kjósi að nærast á flestu öðru en dýrum og þeirra afurðum. Það er auðvitað til tómra vandræða þegar fólk af mínu sauðahúsi fellur svona lævíslega í fjöldann, en hugsaðu þér bara…kannski þekkirðu fleiri grænmetisætur en þú heldur?

En nóg um mig. Kveðum eitt stykki staðalímynd í kútinn í dag. Hvaða týpur eru það sem hinn almenni borgari gæti ekki ímyndað sér að lifði án dýrapróteina og dýrafitu?

Númer eitt: vöðvatröllið

Má ég kynna…sönnunargagn A. (e. Exhibit A).

hippar1

Mike Tyson. Já, dömur mínar og herrar. Jafnvel þó Tyson þessi hafi gerst sekur um að narta í mannseyru eða tvö þá hefur hann snúið frá villu síns vegar og kosið að lifa eingöngu á jurtafæði. Hann er vegan og borðar þ.a.l. ekkert kjöt, fisk, kjúkling, mjólk eða egg. Og þar af leiðandi drekkur hann væntanlega ekki mjólkurpróteindrykki í annað hvert mál heldur. Það væri kannski langt gengið að kalla hann fyrirmynd siðferðislegrar meðhöndlunar kvenna, karla og dýra, en hann er hér notaður sem sönnunargagn um að vöðvamiklir karlmenn geta líka verið vegan.

 

(og hey – Ellen er vegan líka svo við getum strikað yfir ímynd karakterslausu grænmetisætanna)

 

…já, ok. Hann Mike Tyson er ekki beint vöðvatröll. En Kenneth G Williams er atvinnumaður í vaxtarrækt. Og hann borðar brjálæðislega mikið af kartöflum og avocado til að byggja sig upp – ójá!

 

 

http://www.youtube.com/watch?v=YvEH7W_w1NA

 

Númer tvö: feitt fólk

Feitt fólk verður fyrir fordómum. Grænmetisætur verða fyrir fordómum. Blandaðu þessu tvennu saman og þú færð út eitthvað sem jaðrar við ofbeldi. Margir halda að grænmetisætur geti ekki verið feitar og feitt fólk borði alveg pottþétt ekki hollan mat. Þess vegna eru grænmetisætur yfir meðalstærð oft ekki teknar alvarlega.

 

hippar2

Manstu eftir Hurley úr Lost þáttunum? Jább. Hann er vegan. Ég sver‘ða. Hann er e.t.v. ekki að básúna því um stræti og torg en leynir því ekki heldur og ef þú fylgist með blogginu hans muntu rekast á vegan uppskriftir með reglulegu millibili.

Við þetta vil ég bæta að ég kýs að nota „feitur“ sem hlutlaust lýsingarorð sem ekki felur í sér neina dóma. Sumt fólk er ljóshært, annað dökkhært, sumt fólk er feitt, annað fólk er mjótt. Þau mega vera það í friði og mér kemur það ekkert við. -kannski vilja sumir jafnvel bara ekkert vera mjóir!

 

Númer þrjú: valdamiklir karlmenn

Mörgum finnst það ekki fara saman að borða grænmeti og stjórna heiminum. Bill Clinton er kannski ekki lengur forseti kapítalismans en hann varpar ennþá frá sér þessum valdamennskustraumum og getur örugglega haft áhrif á allskonar sem hann langar. Næst þegar hann kemur til Íslands trúi ég að hann láti mynda sig á Gló en ekki Bæjarins bestu því hann gerðist vegan eftir að hann lenti í vandræðum með hjartað.

Númer fjögur: ólátabelgir og vandræðagripir

Ég hef ekki tölu á því hvað ég hef lesið margar og mismunandi frásagnir af veseninu í kringum hann Russell Brand. Ég gef honum orðið:

 

hippar3

 

Númer fimm: karlmenn yfir höfuð

Ég hef oft fengið þá spurningu hvort grænmetisátið sé ekki svona konudót eitthvað. Þegar ég svara því að svo sé ekki og ég þekki meira að segja margar karlkyns grænmetisætur persónulega mæti ég ýmist vantrú eða heyri fólk súpa hveljur. Af ofangreindum dæmum má sjá að jú, karlmenn geta verið grænmetisætur, og fyrir þá sem eru enn vantrúaðir vil ég benda á greinina Veganism and Gender sem heldur því fram að hlutfall grænmetisæta sé svipað hjá báðum kynjum!

Ég geri mér grein fyrir að ofangreindir einstaklingar eru flestir um margt gagnrýnisverðir (erum við það samt ekki flest…svona ef maður pælir í því?). Það er nefnilega einmitt grundvallarpunkturinn – grænmetisætur eru hvorki betri né verri en aðrir, heldur litríkur hópur af ólíkum einstaklingum sem á brot af lífsskoðunum sínum sameiginlegt. Ekki síður vildi ég sýna fram á að ákvörðun einstaklings um að gerast grænmetisæta felur ekki sjálfkrafa í sér nein fyrirfram ákveðin örlög. Grænmetisætur geta verið vöðvamiklar, feitar, skemmtilegar, leiðinlegar, andlega þroskaðar eða á margan hátt klikkaðar, eiturlyfjaneytendur, ofbeldisseggir, alheimsforsetar eða meira að segja af hvaða kyni sem þeim sýnist.

Höfundur: Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir

Áður birt á innihald.is