Samtök grænkera á Íslandi stuðla að jákvæðri ímynd og fjölgun grænmetisæta, standa vörð um hagsmuni þeirra og vinna að því að fjölga valkostum nauðsynja- og neysluvara án dýraafurða.


GANGA Í SAMTÖKIN

Rannsókn mistúlkuð – veganismi kálar ekki náttúrunni

Frétt um skaðleg áhrif grænmetisfæðis á umhverfið hefur birst á mörgum fréttamiðlum í dag og því vilja Samtök grænmetisæta á Íslandi koma á framfæri eftirfarandi tilkynningu:

Umræddar fréttir fjalla um rannsókn á vegum Carnegie Mellon University sem á að hafa sýnt fram á að grænmetisfæði hafi skaðlegri áhrif á umhverfið en hefðbundið bandarískt mataræði. Þegar nánar er rýnt í rannsóknina kemur í ljós að sú ályktun er röng. Sá samanburður sem rannsakendur gera skoðar muninn á mismunandi samsetningu mataræðis samsettu úr bæði jurta- og dýraafurðum út frá vatnsnotkun og losun gróðurhúsalofttegunda á bak við hverja hitaeiningu. Hreint grænmetisfæði er hvergi mælt í rannsókninni en við samanburðinn eru skoðaðar þær tegundir grænmetis sem fæstar hitaeiningar hafa á móti þeim dýraafurðum sem hafa flestar hitaeiningar. Ef gengið er t.d. út frá því að manneskja sem hættir að borða beikon bæti þær hitaeiningar allar upp með neyslu á káli en slíkt væri með öllu óraunhæft. Í 100 grömmum af steiktu beikoni eru 513 hitaeiningar en aðeins 12 hitaeiningar eru í 100 grömmum af jöklasalati. Ef miðað er við forsendur rannsóknarinnar þyrfti að borða 43 kíló af salati fyrir hver 100 grömm af beikoni sem yrði sleppt.

Ef miðað er við forsendur rannsóknarinnar þyrfti að borða 43 kíló af salati fyrir hver 100 grömm af beikoni sem yrði sleppt.

604500438_8931070402_oVissulega er hægt að fallast á að ræktun slíks magns af káli geti hugsanlega krafist meiri vatnsnotkunar en framleiðsla 100 gramma af beikoni, en samanburðurinn er með öllu fráleitur. Að auki gerir samanburðurinn ráð fyrir aukinni neyslu mjólkurafurða og sjávarfangs sem að meðaltali hafa meiri mengandi áhrif en jurtafæði. Í samtali við Huffington Post segja rannsakendur að niðurstöðurnar séu ekki þær að grænmetisfæði sé meiri mengunarvaldur en dýraafurðir, heldur þær að SUMT grænmeti kosti meiri auðlindir en SUMT kjöt ef mælt er hitaeiningu fyrir hitaeiningu.

Það er fullljóst að enginn neytir orkusnauðs grænmetis sem aðalorkugjafa máltíða heldur er það fyrst og fremst meðlæti sem neytt er í litlu magni með orkuríkari fæðu á borð við baunir, korn, hnetur og fræ. Orkusnautt grænmeti hefur þó þann kost að bæta trefjum, vítamínum, steinefnum, andoxunarefnum og fjölda plöntunæringarefnum við máltíðina.

Framleiðsla dýra og afurða þeirra er óumdeilanlega einn versti mengunarvaldur heimsins og hafa Sameinuðu þjóðirnar t.a.m. gefið út skýrslu um mikilvægi þess að mannkynið dragi verulega úr neyslu dýraafurða til að sporna við áhrifum mengunar. Það er auðséð fyrir hvern þann sem skoðar málið að sú aðferðafræði að nota dýrin sem millilið fyrir orku og næringu er afskaplega kostnaðarsöm leið til að sjá mannkyninu fyrir mat. Einn nautgripur borðar og drekkur á hverjum degi margfalt meiri vökva og orku en ein manneskja gæti nokkurn tímann gert. Ef sama ræktarland og er notað til að fóðra gripinn væri nýtt til að rækta jurtafæði til manneldis næðist fram umtalsvert betri nýting vatns og lands. Dýrið þarf svo að lifa í einhverja mánuði eða ár áður en það og/eða afurðir þess eru nýttar til matar, en alla þess stuttu ævi skilar það frá sér gríðarlegum úrgangi – m.a. metangasi – sem veldur þannig mikilli mengun til viðbótar.

Gylta á íslensku svínabúi.

Gylta á íslensku svínabúi.

Þar sem framleiðsludýr til manneldis eru jurtaætur er það einfaldlega reikningsdæmi sem ekki gengur upp að halda því fram að jurtafæði sem maður neytir beint af akrinum sé meiri mengunarvaldur en ef sama hráefni væri unnið í gegnum líkama dýrs, dag eftir dag, mánuð eftir mánuð áður en dýrinu er slátrað til neyslu.

Loks má benda á að í inngangi þeirrar rannsóknar sem hin villandi frétt byggir á er bent á að rannsóknir hafi sýnt fram á að í Evrópu dragi neysla jurtafæðis verulega úr umhverfismengun, en það staðfestir yfirgnæfandi meirihluti þeirra vönduðu rannsókna sem gerðar hafa verið.
Samtök grænmetisæta á Íslandi hvetja fjölmiðla til vandaðs fréttaflutnings um umhverfisáhrif matvælaiðnaðarins og benda áhugasömum lesendum á hina metnaðarfullu heimildarmynd, Cowspiracy, sem fjallar ítarlega um málið.