Samtök grænkera á Íslandi stuðla að jákvæðri ímynd og fjölgun grænmetisæta, standa vörð um hagsmuni þeirra og vinna að því að fjölga valkostum nauðsynja- og neysluvara án dýraafurða.


GANGA Í SAMTÖKIN

Af hverju veganismi kemur öllum við

Þeir einstaklingar sem lifa undir merkjum veganisma eiga það sameiginlegt að forðast eftir fremsta megni alla neyslu dýraafurða. Í því felst að viðkomandi borðar hvorki dýr né afurðir þeirra, þ.á.m. kjöt, fisk, egg, mjólkurvörur og vörur eða innihaldsefni unnin úr þessum flokkum. Að auki forðast þeir flestir að nota vörur unnar úr skinni, leðri, fiskiroði, beinum og öðrum vörum sem innihalda leifar af dýrum. Sjálfri hefur mér meira að segja tekist að leita uppi hárvörur, förðunar- og snyrtivörur, og ýmislegt fleira merkt með Vegan stimplinum, sem tryggir að varan innihaldi engar afurðir eða leifar dýra. Síðasti happafengur minn var m.a.s. hársnyrtistofa sem notar vegan og lífrænan hárlit, svo nú get ég sveiflað gervilituðum lokkunum með stolti og góðri samvisku.

Ég skil vel, og hef oft heyrt, að mörgum þyki þetta meira en gott þykir og að með þessu sé verið að flækja lífið að óþörfu. Við því vil ég í fyrsta lagi segja að um leið og ég hef fundið góða vöru með mínum ástkæra Vegan stimpli, þá hafi verið greitt allverulega úr flækjustiginu þar sem ég get þá að öllu jöfnu sótt sömu vöru aftur á sama stað. Ég skil líka að almenningur upp til hópa velti þessu ekki mikið fyrir sér og sé ekki tilbúinn að eyða mikilli fyrirhöfn í slíka leit.

Það sem ég vil hins vegar vekja athygli sem flestra á er að vöruframboð Vegan merktra vara er stöðugt vaxandi og má nú sjá fjölda vara í almennum verslunum merktar með þessum hætti. Þessar vörur eru á engan hátt verri að gæðum en hinar hefðbundnu og líklega finnst enginn munur á notagildi eða notkun þessara vara. Það sem þær hafa hins vegar fram yfir aðrar er sú fullvissa að engin dýr hafa verið nýtt til framleiðslunnar og varan hefur heldur ekki verið prófuð á dýrum. Fyrir utan það hversu mikilvægt það er í ljósi dýraverndunarsjónarmiða þá vil ég einnig benda á að framleiðsla dýra til slátrunar og nýtingar í hvers konar framleiðslu er einn versti mengunarvaldur heimsins í dag.

Til þess að rækta einn einstakling til slátrunar, hvort sem það er naut, kind, hæna eða aðrar dýrategundir, þarf gríðarlegt magn hráefna. Mikið landsvæði þarf til fóðurræktunar auk þess sem mikil mengun fylgir uppskeru og vinnslu dýrafóðurs. Ógrynni af hreinu vatni fer til spillis bæði til fóðurræktunar og vatnsneyslu þessara dýra. Úrgangur dýranna er einnig gríðarlegt vandamál víða og getur valdið bæði mengun og hættu á sjúkdómum í mönnum. Nálægð manna við stóra hópa dýra í vafasömum og illa ræstum húsakynnum felur einnig í sér sjúkdómahættu eins og þekkt er orðið (svínaflensa, fuglaflensa…). Auk þessa má nefna orkusóun, m.a. vegna reksturs yfirbyggingar en í fjöldamörgum löndum má gera ráð fyrir að verksmiðjubú séu knúin áfram af mengandi orkugjöfum á borð við olíu eða kjarnorkuframleidda raforku.

Allt ofangreint skiptir okkur öll máli og ég trúi ekki öðru en að flestir geti verið sammála um að það sé öllum til góðs að draga úr, og helst hætta allri verksmiðjuframleiðslu og þjáningu málleysingjanna. Þó að oft sé því haldið fram að hérlendis sé aðbúnaður dýra betri en erlendis, og ég taki ekki afstöðu til þeirra ábendinga, bendi ég á að flestar framleiddar vörur eru fluttar inn frá erlendum framleiðendum og í mörgum löndum er aðstæðum dýra helst hægt að líkja við lifandi helvíti.

Jafnvel þó margir kjósi að neyta dýraafurða geta þeir lagt sitt af mörkum með því einu að velja veganmerkta vöru í stað hefðbundinnar þegar valkosturinn er fyrir hendi. Hver einasta veganmerkta vara sem fer ofan í körfuna dregur úr eftirspurn eftir dýraafurðum og stækkar grundvöll fyrir frekari vöruþróun vegan vara.

Á vefsíðunni Veganeyja.org eru fjöldamargar myndir af veganmerktum vörum í íslenskum verslunum og er listinn í stöðugum vexti.

Höfundur: Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir

Áður birt á innihald.is