Samtök grænkera á Íslandi stuðla að jákvæðri ímynd og fjölgun grænmetisæta, standa vörð um hagsmuni þeirra og vinna að því að fjölga valkostum nauðsynja- og neysluvara án dýraafurða.


GANGA Í SAMTÖKIN

Frá femínisma til dýravelferðar

Fyrir níu árum síðan tók Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir ákvörðun um að gerast grænmetisæta. Hún segir að sér hafi ekki reynst erfitt að hætta að borða kjöt og fisk, en hún hafi hins vegar þurft að læra að elda upp á nýtt. Steinunn er nú í meistaranámi í New York, en helsti munurinn á því að vera grænmetisæta í stórborg er að þar í borg er alltaf gert ráð fyrir grænmetisætum.

SteinunnGG-withinfo

Hvers vegna gerðistu grænmetisæta?

Ég var kynnt fyrir bókinni The Sexual Politics of Meat eftir Carol Adams og þá var ekki aftur snúið.

Ég var kynnt fyrir bókinni The Sexual Politics of Meat eftir Carol Adams og þá var ekki aftur snúið. Í bókinni eru réttindi dýra sett í samhengi við femínisma þar sem lögð er áhersla á forréttindi. Mannfólk er í forréttindastöðu gagnvart dýrum sem það þarf að gera sér grein fyrir og ákveða hvernig það ætlar að fara með. Líkt og forréttindi karla, ófatlaðra, hvítra, gagnkynhneigðra o.s.frv. Þegar ég hafði gert mér grein fyrir þessu fannst mér ég ekki geta tekið lengur þátt í kúgun dýra, sérstaklega þar sem sú kúgun væri hluti af stærra kerfi undirokunar og misréttis.

Hvernig breyttir þú um mataræði? Reyndist þér það auðvelt eða erfitt?

Það var ekkert erfitt að hætta að borða kjöt og fisk, sérstaklega af því mig langaði ekkert lengur til þess. En maður þarf að læra ýmislegt nýtt. Ég gat ekki bara eldað hakk og spagettí eða kjötbollur og kál, eins og ég hafði lært að gera heima hjá mér. Til að byrja með var ég voða mikið að borða frosnar pizzur með ábættu áleggi eða alls konar drasl steikt á pönnu. Síðan þá hef ég tekið mig aðeins á og lært að elda alls konar nýtt, sem er mjög bragðgott og pínu hollara.

Hvernig þykir þér úrvalið verslunum vera fyrir grænmetisætur?

Heima versla ég nú almennt í Bónus og það hefur gefist vel. Þegar ég fór að sinna innkaupum fyrir athvarf sem ég vann í fyrir tveimur árum fór ég í fyrsta skipti að versla kjöt eftir að ég flutti að heiman og áttaði mig þá á hvers konar fjárhæðir ég væri búin að spara í gegnum árin með því að sleppa kjöti. Bara verð á áleggi, hakki og kjúklingi komu mér mjög á óvart! Síðan þá hef ég stundum leyft mér að kaupa oftar vörur sem mér finnst dýrar eins og mangó, chia fræ eða eitthvað álíka.

Bara verð á áleggi, hakki og kjúklingi komu mér mjög á óvart! Síðan þá hef ég stundum leyft mér að kaupa oftar vörur sem mér finnst dýrar eins og mangó, chia fræ eða eitthvað álíka.

En hvað með veitingastaði?

Matur til að grípa með sér á hraðferð er alltaf vesen á Íslandi. Hinar týpísku bensínstöðva samlokur eru bara allar með kjúklingi eða hangikjöti! Mér hefur alltaf þótt þetta svolítið vesen af því ég er mjög mikið á ferðinni, alltaf á síðustu stundu en má alls ekki við því að sleppa úr máltíð. Það væri alveg gaman að sjá fleiri samlokur með hummus og salati, eða falafel boltum, eða grilluðu grænmeti, eða avókadó og öllu hinu góða úr jurtaríkinu. Eitthvað djúsí og gott!

Hvernig hafa samskiptin við fjölskylduna gengið varðandi mataræði þitt?

Móðurbróðir minn hefur verið grænmetisæta í þrjá áratugi þannig að þetta er ekkert nýtt í minni fjölskyldu. Þegar ég er í mat hjá foreldrum mínum er annað hvort grænmetismatur eða ég elda eitthvað aukalega.

Sambýlismaður minn er ekki grænmetisæta en heima eldum við bara grænmetismat. Hann er mjög ánægður með þetta fyrirkomulag og segist borða mun fjölbreyttari mat í dag en áður.

Hefur þú rekist á einhverjar góðar hugmyndir í New York sem mætti kynna á Íslandi?

Í svona fjölmenningarsamfélagi eins og hér er alltaf gert ráð fyrir grænmetisætum alls staðar. Þannig að ef maður mætir á fundi, fer í hópferðalög, í kokteilboð, eða annað þar sem hópur fólks kemur saman, er alltaf gert ráð fyrir grænmetisætum. Heima á Íslandi mætti stundum gera ráð fyrir meiri margbreytileika mannlífsins.

Heima á Íslandi mætti stundum gera ráð fyrir meiri margbreytileika mannlífsins.

Því er gjarnan haldið fram að grænmetisfæði sé hollara en hefðbundið mataræði, er það rétt að þínu mati?

Það fer algjörlega eftir því hvað maður velur að borða! Það er ekkert mál að borða pizzur, franskar, kók og súkkulaði í öll mál. Hins vegar þegar maður tekur kjöt, fisk og jafnvel mjólkurvörur út úr mataræðinu, þá þarf að bæta upp slatta af hitaeiningum sem er hægt að gera með grænu salati, og öðru grænmeti, ásamt ávöxtum, baunum, hnetum og fræjum og stórauka þannig neyslu á hollum mat.

Ættu allir að vera grænmetisætur?

Allir ættu að íhuga að minnka neyslu á kjöti og mjólkurvörum. Það er algjör óþarfi að borða kjöt í mötuneytinu í hádeginu og svo aftur heima á kvöldin. Það fer óheyrilegt ræktarland og vatn í það eitt að rækta dýrafóður fyrir sláturdýr í heiminum í dag. Þannig að fyrir þau sem vilja draga úr þjáningu dýra og taka þátt í að bæta umhverfið, er kjötlaus máltíð góð leið til þess.

 

Týpískur grænkeradagur:

Morgunmatur : Hafragrautur með möndlumjólk, kanilsykri og rúsínum + kaffi

Hádegi: Hér í New York er alls staðar hægt að kaupa bakka með grænmetissushi þannig að það verður mjög oft fyrir valinu.

Snarl: Beygla með avókadó eða ristað brauð með hummus.

Kvöldmatur: Raw-lasagna úr Heilsuréttabókinni hennar Sollu, rosa gott!

Eva Bjarnadóttir

Skrifað af: Evu Bjarnadóttir

Eva Bjarnadóttir er stjórnmálafræðingur, aðfluttur Vesturbæingur og grænmetisæta sem hefur áhuga á matar- og heilsumenningu og áhrifum hennar á umhverfi okkar.