Samtök grænkera á Íslandi stuðla að jákvæðri ímynd og fjölgun grænmetisæta, standa vörð um hagsmuni þeirra og vinna að því að fjölga valkostum nauðsynja- og neysluvara án dýraafurða.


GANGA Í SAMTÖKIN

HÁ-kolvetnalífsstíllinn!

Nú á tímum lágkolvetnahneigðar landans þykir mér skemmtilegra en nokkru sinni fyrr að segja hverjum sem á vill hlýða að orkuhlutföll í mínu mataræði séu að meðaltali í kringum 80% kolvetni, 10% fitu og 10% prótein. Sumir falla næstum í öngvit við tilhugsunina eina saman, aðrir lýsa yfir nístandi áhyggjum af heilsufari mínu, enn aðrir halda að ég sé að fíflast og einhverjir hafa reynt að leiða mig frá villu míns vegar með dramatískum, og að þeirra mati freistandi tilboðum um hvers kyns rjómalagað beikonglundur. Enda ekki skrýtið þar sem kolvetni eru óvinurinn og leiða hvern sem á þau trúir umsvifalaust í heljargreipar offitu, næringarskorts og óhamingju. Eða hvað?

Dr. Joel Fuhrman segir frá því í bókum sínum og fyrirlestrum að talið sé að finna megi allt að 10.000 mismunandi næringarefni, andoxunarefni og annars konar plöntuefni (e. phytochemicals) sem líkaminn getur nýtt sér til gagns og yndisauka. Flóran er svo víðtæk að meirihluti þessara efna hafa ekki verið nefnd ennþá en öll hafa þau einhverju hlutverki að gegna. Þekkt er t.d. orðið plöntuefnið lycopene sem finnst í tómötum og hefur verið tengt við eflingu náttúrulegra krabbameinsvarna líkamans. Í sakleysislegum bita af spergilkáli munu vera um 1.000 mismunandi slík efni og í einu jarðarberjakrútti eru þau 800. Sjálf er ég alveg handviss um það að vísindin eru rétt að byrja að skanna yfirborðið á undrum plöntunæringar og að fjöldamargir kostir muni koma í ljós næstu ár og áratugi.

Með því að borða fjölbreytt og marglitt úrval af grænmeti, ávöxtum og öðru góðgæti úr jurtaríkinu er hægt að hámarka inntöku á öllum þeim næringarefnum sem við þekkjum og líka þeim sem við höfum enn ekki kortlagt. Ég trúi því heitt og innilega að líkaminn nái sinni bestu heilsu á hreinu og heilnæmu fæði úr jurtaríkinu, laus við þungmeltar byrðar dýraríkisins, en í það minnsta veit ég ekki um neinn sem er ósammála því að hvaða mataræði sem er getur stórbatnað með aukinni grænmetisneyslu.

En hvað borða ég þá eiginlega og hvað er málið með öll þessi kolvetni?

Í fyrsta lagi vil ég taka af allan vafa um það hvað ég borða ekki. Í þann flokk falla allar dýraafurðir: kjöt, fiskur, mjólk og mjólkurvörur, egg, hunang og allar vörur unnar úr dýraríkinu. Ég forðast hvítt hveiti og sykur, unnar matvörur, mat úr niðursuðudósum, gosdrykki og hvað sem getur mögulega hafa komið upp úr djúpsteikingarpotti.

Ég vil borða og matreiða úr fersku og ómeðhöndluðu hráefni eins og kostur er, mat sem kemur ekki úr pakka eða er helst bara með eitt hráefni á innihaldslýsingunni. Ég vil að hráefnin séu heil, þ.e. að þau séu óunnin með öllu og líti út eins og þau gerðu í náttúrunni eða að ekkert hafi verið tekið úr eða bætt í. Það þýðir t.d. að heilhveiti væri margfalt betri kostur en hvítt hveiti, að ég held neyslu á ávaxta- og grænmetissafa í lágmarki því í þá vantar trefjarnar og fleiri góð innihaldsefni. Ég nota helst enga olíu því hún er mjög unnin vara og búið að einangra fituna frá öðrum gagnlegum efnum – þannig kýs ég að fá mína fitu úr hnetum, fræjum og fituríku ferskmeti eins og t.d. avocado. Eftir situr þá gnótt af grænmetis- og ávaxtategundum, hnetum, fræjum, korni og baunum.

Með því að halda grænmeti og ávöxtum sem þungamiðju mataræðisins og borða úr öðrum flokkum í hófi fell ég fyrirhafnarlaust í 80% kolvetnaneysluna sem áður er nefnd, sem er bæði afleiðing og markmið minnar matarneyslu (meira um það síðar). Með reglulegu millibili skrái ég hvern bita sem ofan í mig fer og slæ inn í næringarforritiðCRON-O-Meter og í hvert sinn kemst ég að því að ég fæ allar nauðsynlegu amínósýrurnar í magni sem nær vel yfir viðmiðunarmörk (svo ekki spyrja mig hvaðan ég fæ prótein!), ég fæ meira en nóg af öllum þeim vítamínum og steinefnum sem þar eru mæld (fyrir utan B12 sem ég tek inn sérstaklega), og þegar ég ber mínar niðurstöður saman við viðmiðunarmælingu fólks sem borðar mjög hefðbundið mataræði þá sé ég í hvert sinn að ég vinn næringarkeppnina með yfirburðum. Ég get með sanni sagt að ég hafi aldrei verið hressari og orkumeiri, hef aldrei borðað eins fáránlega mikið magn af mat á hverjum einasta degi og ofan á allt saman er líkaminn hægt og rólega að losa sig við óþarfan fituforða þrátt fyrir öll þessi kolvetni.

Fyrir þá sem eru undrandi, forvitnir, áhugasamir eða vilja stara á matinn minn í vantrúarkasti eins og margir sem ég þekki (hæ, þið vitið hver þið eruð ) – þá ætla ég að mynda allar mínar máltíðir næstu vikuna eða svo og hlaða inn á Instagram vinum mínum og lesendum til upplýsinga og fróðleiks: www.instagram.com/saeunnim

Höfundur: Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir

Áður birt á innihald.is