Samtök grænkera á Íslandi stuðla að jákvæðri ímynd og fjölgun grænmetisæta, standa vörð um hagsmuni þeirra og vinna að því að fjölga valkostum nauðsynja- og neysluvara án dýraafurða.


GANGA Í SAMTÖKIN

Hvað ef jörðin er ekki sjálfsali?

Ég sem grænmetisæta heyri oft þær röksemdir gegn mínum lífsstíl að dýrin hafi verið sett á jörðina fyrir mannkynið. Að þau séu auðlind náttúrunnar, gjöf til okkar svo við getum neytt þeirra á hvern þann hátt sem kemur okkur að gagni. Að við drottnum yfir jörðinni og íbúum hennar, séum efst í fæðukeðjunni og það sé bæði heimskulegt og skaðlegt að lifa á jurtaríkinu einu saman.

Gott og vel. Enginn er alvitur svo ekki ætla ég að fullyrða að þessar ályktanir séu rangar. Kannski er Guð til og skapaði jörðina eins og stendur í Biblíunni. Kannski eru dýrin meðvitundarlaus og finna ekki sársauka. Kannski er það sem lítur út eins og viðbrögð við andlegum og líkamlegum sársauka innantóm og eðlislæg svörun án nokkurrar dýpri merkingar. Kannski eru allar þær rannsóknir sem benda til hins gagnstæða rangar og hver veit nema einhyrningar drottni í elleftu víddinni eða að geimverur búi í sólinni. Ég meina þetta ekki á kaldhæðinn eða hrokafullan hátt. Ég veit nægilega mikið um vísindalegar aðferðir til að skilja að ekkert er útilokað og ekkert getur talist sannað eða óhrekjanlegt með öllu.

En hvað ef dýrin voru ekki sett á jörðina til að þræla og deyja fyrir manninn? Hvað ef þau hafa tilfinningar, sársaukaskyn og greind? Hvað ef þau eiga fjölskyldur, vini og vitsmunalíf með öllu sem því fylgir? Hvað ef jörðin er ekki ótakmarkaður sjálfsali mannsins og hvað ef tilvist dýranna hefur ekkert með okkar neyslu að gera? Hvað ef við erum ekki efst í fæðupíramídanum eins og mörg okkar telja víst? Við getum ekki útilokað þann möguleika frekar en hinn.

Þegar málið snýst um líf eða dauða einstaklinga vil ég taka alla möguleika til greina og þess vegna kýs ég að láta dýrin njóta vafans. Vegna þess að ég hef það val og ég get auðveldlega lifað án afurða þeirra.

Þess vegna segi ég þeim sem spyrja mig hvers vegna ég kýs þennan lífsstíl: „Ég er grænmetisæta af því að ég get það“.

Höfundur: Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir

Áður birt á innihald.is