Samtök grænkera á Íslandi stuðla að jákvæðri ímynd og fjölgun grænmetisæta, standa vörð um hagsmuni þeirra og vinna að því að fjölga valkostum nauðsynja- og neysluvara án dýraafurða.


GANGA Í SAMTÖKIN

Ofurfæða

Solla Eiríks:

Ofurfæða (e. superfood) hefur verið skilgreind sem fæða sem inniheldur frá náttúrunnar hendi sérstaklega mikið magn af næringarefnum og/eða góðum plöntuefnum. Oft er kunnulegur matur eins og bláber, brokkolí, lax og valhnetur flokkaður sem ofurfæði. Sumir tala um meira framandi fæðu eins og goji ber, maca og hráar kakóbaunir. Svo eru enn aðrir sem eru hræddir um að þessi flokkun láti “venjulegan” mat eins og appelsínur og epli líta út fyrir að vera næringarsnauðan. Þannig lít ég reyndar ekki á þetta því ég veit að allt gott hráefni sem við mennirnir höfum aldalanga reynslu af hefur sína kosti, hvort sem nafnið hljómar hefðbundið eða framandi í okkar eyrum.

Þegar ég var lítil passaði mamma alltaf vel uppá að ég fengi nóg af næringarríkum mat og hafði fjölbreytnina í fyrirrúmi. Hún gaf mér m.a. gjarnan söl, krækiberjasafa, brokkolí, rauðrófur, bláber, möndlur, mjólkursýrt grænmeti, fjallagrasasúpu, hundasúrur og fíflablöð og fleira í þessum dúr. Flest var þetta heimatínt, heimaræktað eða heimalagað. Þegar ég lít til baka sé ég að mamma var að gefa mér ofurfæðu síns tíma. Það er skemmtilegt til þess að hugsa að á sama tíma og mamma var að sýsla í garðrækt og berjamó hér uppi á Íslandi þá var kynsystir hennar í Perú að gera svipaða hluti, nema sú var að rækta macarót, þurrka hana og mala og í Kína var önnur mamma að tína gojiber handa börnunum sínum.

Þær ofurfæðutegundir sem hljóma afskaplega framandi í okkar eyru eru nefnilega ekkert framandi þar sem þær vaxa. Þetta er bara hefðbundinn partur af mataræði innfæddra, “venjulegur” matur sem hefur reynst þeim vel. Alveg á sama hátt og við notum söl, bláber, krækiber og fjallagrös á Íslandi, sem hljómar mjög framandi í eyrum þeirra sem fæddust hinum megin á hnettinum. Það er samt gott að hafa í huga að sumar af þessum fæðutegundum eru kraftmiklar og þess vegna ber að gæta hófs og nota skynsemina. Ef við t.d. borðum 3 pakka af sölvum þá er líklegt að við fáum niðurgang, eða ef við drekkum 3 glös af hveitigrasi þá gubbum við og verðum jafn græn í framan og grasasafinn. Í réttu magni er ofurfæða skemmtileg og næringarrík viðbót við fæðuna okkar og bjútíið er að bara pínulítið magn gefur hlutfallslega mikla næringu. Auðvitað getum við fengið alla okkar næringu með því að borða fjölbreytt “hefðbundið” fæði, en mörgum finnst gaman að prófa nýja hluti og jafnvel fá smá auka búst. Fyrir þá nýjungajörnu sem langar að prófa eitthvað spennandi hef ég búið til nokkrar uppskriftir sem allar innihalda framandi ofurfæðu. Einnig hef ég látið fylgja með smá fróðleik um tegundirnar sem er að finna í uppskriftunum.

Goji ber

Þetta eru lítil rauð ílöng ber, stundum kölluð úlfaber. Talið er að uppruni goji berja sé í Tíbet, Himalaya og Kína. Kínverjar hafa notað þau í þúsundir ára, bæði til lækninga og manneldis. Þau eru sögð auka orku, einbeitingu og vellíðan. Goji ber eru auðug af vítamínum, steinefnum og andoxunarefnum og eru próteinrík miðað við þurrkaða ávexti.

Goji ber eru mjög bragðgóð og hægt að nota þau svipað og rúsínur.

 

Hráar kakóbaunir

Maya Indíánarnir og Aztecarnir notuðu kakóbaunir sem gjaldmiðil í stað peninga, svo dýrmætar þóttu þær, enda kallaðar fæða guðanna. Baunirnar eru stein- og snefilefnaríkar. Einnig eru þær sérlega ríkar af andoxunarefnum og öðru góðgæti fyrir kroppinn sem er sagt auka vellíðan. Þegar kakóbaunir eru ristaðar tapast hluti af andoxunarefnunum og því er gaman að prófa að nota þær hráar til að fá enn meiri virkni. Þær eru yndislegar í sjeika og allskyns eftirrétti.

 

Maca

Maca er rótargrænmeti, ræktað hátt uppi í Andesfjöllunum í Perú. Innfæddir hafa notað rótina síðan fyrir tíð Inkanna. Rótin er þurrkuð og möluð í duft sem er mjög næringarríkt. Maca er sögð auka einbeitingu, úthald, orku og frjósemi. Margar konur tala einnig um að maca hjálpi til við að halda svitaköstum á breytingarskeiðinu í skefjum. Ég nota duftið aðallega í sjeika, konfekt og súkkulaði. (Því miður fæst það ekki hér á landi eins og er en vonandi verður bætt úr því fljótlega, þangað til þurfið þið að hafa augun opin í heilsubúðum erlendis).

 

Chia fræ

Chia fræ eru upprunnin í Mexíkó og Guatemala þar sem þau eru ennþá notuð í matargerð, en talið er að Aztecar hafi haldið mikið uppá þau.

Chia fræ eru auðug af fjölómettuðum fitusýrum og þá sérstaklega omega-3, sem eru lífsnauðsynlegar en fást ekki úr hverju sem er. Fræin eru mjög trefjarík og þegar þau eru lögð í bleyti verður til eins konar búðingur sem hefur skemmtilega áferð og er t.d. gott að nota í graut.

 

Lucuma

Lucuma er næringarríkur ávöxtur upprunninn í Andesfjöllunum, stundum kallaður gull Inkanna. Lucuma fæst á Íslandi í þurrkuðu duftformi og er æðislegur í sjeika og ís til að gefa sætt og gott bragð. Í Chile og Perú er lucuma ís álíka vinsæll og vanilluísinn okkar!

Bee pollen

Þessi litlu gulu og brúnleitu korn eru talin vera best faldi fjársjóður náttúrunnar. Heilu bækurnar og kverin hafa verið skrifuð um þetta undraefni. Bee pollen er góður prótein gjafi, inniheldur mikið af vítamínum og andoxunarefnum og er sagt gefa orku og aukna frjósemi. Margir afreksmenn í íþróttum nota bee pollen sem bætiefni og láta vel af.

 

Hempfræ

Þessi næringarríku fræ eru talin eiga uppruna sinn í mið-Asíu. Þau eru sérlega rík af lífsnauðsynlegum fitusýrum og amínósýrum. Próteinin eru auðmeltanleg og fitusýrurnar eru í góðum hlutföllum fyrir kroppinn. Hempfræ eru einnig góður stein- og snefilefnagjafi. Þau eru voða góð í sjeika og dressingar, en líka bara ein og sér sem snarl.

 

Chlorella

Chlorella er þörungur sem fæst oftast í grænu dufti eða litlum grænum töflum. Chlorella dregur nafn sitt af sérlega háu chlorophyll (blaðgrænu) innihaldi. Mikið er af próteini, járni og andoxunarefnum í þörungunum og eru þeir sagðir styrkja blóðið og bústa upp ónæmiskerfið. Töflurnar eru teknar inn sem bætiefni en duftið er fínt í sjeika.