Samtök grænkera á Íslandi stuðla að jákvæðri ímynd og fjölgun grænmetisæta, standa vörð um hagsmuni þeirra og vinna að því að fjölga valkostum nauðsynja- og neysluvara án dýraafurða.


GANGA Í SAMTÖKIN

Pólitísk yfirlýsing en ekki sérþarfir

Salóme R. Gunnarsdóttir tók ákvörðun um að hætta að borða kjöt árið 2008 og fjórum árum síðar hafði hún sagt skilið við allar dýraafurðir. Fyrstu jólin kom fjölskyldan henni á óvart með þriggja rétta vegan veislu. Hún lítur ekki á mataræði sitt sem sérþarfir, heldur sem pólitíska yfirlýsingu gegn framleiðsluháttum á dýraafurðum.

salome-vidtalsmynd

Salóme R. Gunnarsdóttir

Leikkona
Vegan í 3 ár
Uppáhalds grænkeramatur: Sushi

Hvers vegna valdir þú að hætta að borða kjöt, og á endanum allar dýraafurðir?

Ég mótmæli þeirri hugmynd um að maðurinn sé sjálfskipaður konungur heimsins og að við getum átt þræla í búrum sem eru framleiðslutæki, svo við getum fengið okkur eitthvað sérstakt ofan á brauð.

Af siðferðislegum og pólitískum ástæðum. Mér tókst einhverntímann að svara þessu ágætlega í blaðaviðtali: Ég gat ekki slitið hugmyndina um dýrið frá matnum og mér þóttu framleiðsluhættirnir á dýraafurðum ekki boðlegir. Ég mótmæli þeirri hugmynd um að maðurinn sé sjálfskipaður konungur heimsins og að við getum átt þræla í búrum sem eru framleiðslutæki, svo við getum fengið okkur eitthvað sérstakt ofan á brauð.

Hvernig breyttir þú um mataræði?

Síðustu augnablikin áður en ég hrinti breytingunum í framkvæmd voru alltaf langerfiðust. Óttinn við breytingarnar. En um leið og skrefið var tekið varð þetta auðveldara. Þá bara einfaldlega borðaði ég ekki viðkomandi matvöru lengur. Það varð bara að staðreynd sem ég vissi um sjálfa mig og ég hætti að líta á þær afurðir sem valkost. Fyrst hætti ég rauðu kjöti, svo hvarf kjúklingurinn skömmu síðar. Þremur árum seinna sagði ég skilið við fiskinn og tæpu ári síðar var ég orðin vegan. Í öllum tilfellum hafði ég borið hugmyndina um komandi breytingu undir belti í langan tíma, og í öllum tilfellum reyndi ég hvað ég gat að loka á siðferðisáttavitann sem sagði mér að ég gæti ekki tekið þegjandi þátt í þessu lengur.

Sumarið 2012 hitti ég í fyrsta skiptið manneskju sem var vegan, nokkuð sem ég hafði verið að velta fyrir mér í tæpt ár, og tók þá samdægurs ákvörðun um að láta af því verða. Viku síðar sagði ég skilið við dýraafurðir…

Sumarið 2012 hitti ég í fyrsta skiptið manneskju sem var vegan, nokkuð sem ég hafði verið að velta fyrir mér í tæpt ár, og tók þá samdægurs ákvörðun um að láta af því verða. Viku síðar sagði ég skilið við dýraafurðir, en gerði undantekningar á veganismanum í foreldrahúsum næsta mánuðinn til að gefa þeim tíma til að átta sig á breytingunni.

Fyrstu mánuðirnir voru mjög spennandi og krefjandi, fullir af uppgötvunum og áskorunum, en svo varð þetta smám saman einfaldara og sjálfvirkara. Ég komst undir eins að því að hugmyndin um lífið án osts var miklu verri en raunverulegt líf án osts. Og allt í einu var ég orðin góður kokkur!

 

Hvernig þykir þér aðgengi að mat sem hentar þér vera í verslunum og á veitingastöðum?

Ég stunda nægjusemi. Ég ætlast ekki til þess að heimurinn krjúpi fyrir mínu sérfæði, vegna þess að ég lít ekki á minn veganisma sem sérþarfir, heldur pólitíska yfirlýsingu. Þar af leiðandi lít ég ekki á mig sem fórnarlamb skilningsvana kjötætusamfélags þegar það er ekkert í boði fyrir mig á matseðlinum.

Ég fagna auðvitað þeim breytingum sem hafa orðið síðustu þrjú árin. Árið 2012 fannst mér enginn vita hvað það þýddi að vera vegan, en í dag virðist mér nánast þriðji hver veitingastaður hafa vegan valkost á matseðli. Hinsvegar snýst málið að mínu mati ekki um aukið framboð og fleiri valkosti, heldur breytt framboð, aukna nægjusemi og meðvitund um afleiðingar gjörða okkar.

Hvernig eru samskiptin við fjölskylduna varðandi mataræði þitt?

….fyrstu jólin komu þau hjónin mér á óvart með þriggja rétta vegan veislu fyrir alla fjölskylduna. Ég er mjög lánsöm.

Þau tóku þessu af miklum skilningi og áhuga. Bróðir minn prófaði meira að segja að vera vegan í mánuð og fyrstu jólin komu þau hjónin mér á óvart með þriggja rétta vegan veislu fyrir alla fjölskylduna. Ég er mjög lánsöm.

Eru allir á heimilinu þínu grænmetisætur?

Nei, allt kjötætur nema mamma sem er pescetarian. Og svo er stelpan sem ég bý með líka pescetarian.

Því er gjarnan haldið fram að grænmetisfæði sé hollara en hefðbundið mataræði, er það rétt að þínu mati?

Það er ofureinföldun að mínu mati. Ég gæti lifað á franskbrauði, frönskum kartöflum og sykurleðju. Það er ekkert mál að næra sig illa þó maður sé hættur að borða kjöt. Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Ættu allir að vera grænmetisætur?

Í okkar samfélagi hafa dýrin hins vegar verið fjarlægð úr náttúrunni og sett í verksmiðjur þar sem við sköpum líf eftir líf eftir líf, meðvitaðar verur, og höldum þeim föngnum. Ævilöng afplánun.

Nei. Mongólskir hirðingjar, afrískir sléttubúar og eskimóar eru allt fyrirtaksdæmi um manneskjur sem lifa í jafnvægi við náttúruna og borða kjöt til að halda sér og sínum á lífi og við heilsu.

Í okkar samfélagi hafa dýrin hins vegar verið fjarlægð úr náttúrunni og sett í verksmiðjur þar sem við sköpum líf eftir líf eftir líf, meðvitaðar verur, og höldum þeim föngnum. Ævilöng afplánun. Sum í þrælabúðum, önnur í útrýmingarbúðum. Þetta gerum við ekki til að lifa af og halda heilsu. Þetta gerum við til að fá okkur samloku með skinku og osti, þegar ótal aðrir valkostir eru í boði.

Þykir þér þörf á að bæta stöðu grænmetisæta á Íslandi?

Ég vil heldur að við breytum öll afstöðu okkar til heimsins. Við skulum ekki bara vera enn einn hagsmunahópurinn sem berst fyrir því að við fáum okkar skerf. Reynum frekar að verða eitthvað stærra, fallegra og konunglegra en sjálfsþjónandi nautnaseggir.

Eva Bjarnadóttir

Skrifað af: Evu Bjarnadóttir

Eva Bjarnadóttir er stjórnmálafræðingur, aðfluttur Vesturbæingur og grænmetisæta sem hefur áhuga á matar- og heilsumenningu og áhrifum hennar á umhverfi okkar.