Samtök grænkera á Íslandi stuðla að jákvæðri ímynd og fjölgun grænmetisæta, standa vörð um hagsmuni þeirra og vinna að því að fjölga valkostum nauðsynja- og neysluvara án dýraafurða.


GANGA Í SAMTÖKIN

Sóknaráætlun ríkisstjórnar Íslands í loftslagsmálum

Samtök grænmetisæta á Íslandi fagna því framtaki ríkisstjórnar Íslands að blása til sóknar í loftslagsmálum. Nauðsynlegt er fyrir komandi kynslóðir að hið opinbera jafnt sem fyrirtæki og einstaklingar taki tafarlaust höndum saman til að draga úr mengun og vinni gegn áhrifum hennar. Allir þættir sóknaráætlunar sem kynntir voru í dag, 25. nóvember 2015, eru mikilvæg og verðug verkefni. Samtökin vilja hins vegar vekja athygli á því að í áætlunina vantar einn stærsta áhrifaþáttinn í losun gróðurhúsalofttegunda.

Þekkt er að framleiðsla dýra og afurða þeirra er stærsti skaðvaldur heimsins er kemur að umhverfismengun. Allt frá ræktun dýranna til framleiðslu afurða þeirra hefur í för með sér meiri losun gróðurhúsalofttegunda en nokkur annar iðnaður. Allar samgöngur heimsins á sjó, lofti og jörðu niðri gefa frá sér minna magn þessa efna en landbúnaðurinn. Víða hefur verið vakin athygli á mikilvægi þess að stýra neyslu einstaklinga meira í átt að jurtafæði og draga úr neyslu kjöts og annarra dýraafurða, m.a. í skýrslu Sameinuðu þjóðanna árið 2010. Því má ljóst vera að til viðbótar við þau verkefni sem þegar hafa verið kynnt er áríðandi og nauðsynlegt að ríkisstjórn Íslands hugi að aðgerðum til að styðja við aukna framleiðslu og neyslu á grænmeti og öðru jurtafæði, svo sem ávöxtum, baunum, hnetum, fræjum og korni.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar frá árinu 2012 um útstreymi lofttegunda sem valda gróðurhúsaáhrifum (nánari upplýsingar) nam losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi frá öllum samgöngum og annarri eldsneytisbrennslu 870.000 tonnum en samanlögð losun landbúnaðar og fiskveiða var rúmum 33% meiri eða 1.168.000 tonn. Að auki olli losun þurrkaðs lands eða framræst mólendi tvöfalt meiri losun en öll önnur losun hér á landi, en mestur hluti þessa er vegna túngerðar fyrir landbúnað. (RÚV, Kastljós, miðvikudaginn 18. nóvember).

Samtök grænmetisæta á Íslandi hvetja almenna neytendur til að styðja markmið um umhverfisvernd með því að draga úr neyslu dýraafurða og auka hlutfall fæðu úr jurtaríkinu. Ennfremur hvetja samtökin til þess hið opinbera láti gera áreiðanlega og nákvæma útreikninga sem sýni óyggjandi samanburð á mismunandi valkostum í fæðuvali á Íslandi. Nauðsynlegt er fyrir hinn almenna neytanda að geta borið saman kolefnisfótspor dýra- og jurtaafurða, bæði innlendrar framleiðslu og innfluttrar.