Samtök grænkera á Íslandi stuðla að jákvæðri ímynd og fjölgun grænmetisæta, standa vörð um hagsmuni þeirra og vinna að því að fjölga valkostum nauðsynja- og neysluvara án dýraafurða.


GANGA Í SAMTÖKIN

Sólarorka og næring

Nýlega las ég bókina The Warrior Way eftir Denley Fowlke og Nick Stern. Jafnvel þó ég hafi sjálf verið grænmetisæta í mjög langan tíma og lesið ógrynni efnis leyndist í þessari einföldu og hnitmiðuðu bók ótrúlega vel orðaður gullmoli sem hefur jafnvel breytt minni eigin sýn á tilgang og eðli grænmetishyggjunnar. Höfundar fjalla í stuttu máli um lífsstílsvanda nútímafólks, orkuleysi og vanlíðan sem einkennir mörg okkar. Við skellum skuldinni gjarnan á þætti eins og álag í starfi eða tímaskort. Þeir félagar hafa hins vegar aðra sýn á vandann.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar heldur leyfi mér að birta hér fyrir neðan þýðingu á hluta af inngangi bókarinnar.

Við virðumst hafa gleymt því hvaðan öll sú orka sem við teljum í hitaeiningum kemur upphaflega. Hún verður ekki til í líkömum okkar. Mannslíkaminn myndar ekki orkuna. Hún kemur ekki til okkar sem ostborgarablessun af himni. Svín, kýr og hænur framleiða hana ekki.

Sannleikurinn er sá að öll orka sem við innbyrðum kemur upphaflega frá sólinni. Hver biti sem við tökum er skapaður af sólarljósi. Meira að segja frumefnin sem mynda líkama okkar koma frá stjörnunum. Þessi ljósorka kemur fljúgandi gegnum kaldan tómleika geimsins frá brennandi gashnetti í yfir 152 milljóna kílómetra fjarlægð og er svo beisluð á nánast töfrandi hátt af plöntum jarðarinnar.

Þessi beislaða orka færist svo upp fæðukeðjuna en í hverjum hlekk keðjunnar verður tap. Orka og efni minnkar í hverju skrefi, myndar meiri úrgang, verður sífellt óskilvirkari því fjær sem það færist frá upprunanum. Almennt má segja að aðeins 10% orku skili sér frá einum hlekk til annars.

Það eru milljón rök fyrir því að fólk sé ýmist jurtaætur, alætur eða kjötætur. Það skiptir í raun engu máli. Við getum lifað af afurðum jurtaríkisins, svo af hverju ekki að borða úr lægri stigum fæðukeðjunnar? Þar er orkan í hámarki, samþétt í sínu hreinasta formi og áður en bróðurpartur hennar tapast í meltingarvegi dýrs, brennur upp sem hiti eða er einfaldlega losuð út sem úrgangur.

Þetta er kjarni grænmetishyggju. Það að reiða okkur á jurtaríkið sem okkar megin fæðuuppsprettu færir okkur nær þeirri upprunalegu sólarorku sem hefur gert lífið mögulegt.

Höfundur: Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir

Áður birt á innihald.is