Samtök grænkera á Íslandi stuðla að jákvæðri ímynd og fjölgun grænmetisæta, standa vörð um hagsmuni þeirra og vinna að því að fjölga valkostum nauðsynja- og neysluvara án dýraafurða.


GANGA Í SAMTÖKIN

Þú áttir aldrei von á ÞESSU frá Steve-O úr Jackass!

Manstu eftir hópi barnalegra brjálæðinga sem kalla sig Jackass? Þeir urðu heimsfrægir fyrir fíflagang og heimskulega vitleysu og komu meðal annars hingað til Íslands eins og margir muna, ekki síst fyrir þær sakir að sviðaát í sjónvarpinu varð þeim um megn. Þeir höfðu lengi lifibrauð sitt af því að vera óábyrgir, kjánalegir og allt undir annarlegum áhrifum efna og/eða andlegs ástands. Satt að segja hef ég frá upphafi haft afskaplega mikla fordóma fyrir þeim félögum og átti aldrei von á að nokkuð sem þeir gerðu gæti mögulega vakið athygli – hvað þá aðdáun mína.

Nýlega rakst ég hins vegar á eftirfarandi myndband sem gjörbreytti sýn minni á þennan annars undarlega karakter.

 

Í dag hefur Steve-O ekki bara snúið baki við drykkju og dópi, heldur hefur hann gengið til liðs við hina sívaxandi vegan hreyfingu heimsins. Hann segir sjálfur frá því að hann hafi meira að segja hætt að borða kjöt áður en hann hætti að dópa. Ég og Steve-O eigum það sameiginlegt að hafa snúið frá neyslu dýraafurða og ég leyfi mér að þýða vel skrifað textabrot úr nýlegum bloggpistli hans:

„Eins og flestir aðrir ólst ég upp án þess að velta því mikið fyrir mér hvað ég borðaði: Ef það smakkaðist vel þá borðaði ég það. Af hverju að pæla meira í því? Ég hef komist að því að flestir nálgast mat á þennan hátt.

En fyrir fimm árum síðan rakst ég á YouTube myndband sem sannfærði mig um að hætta að borða dýr. Ég hafði hitt grænmetisætur og hafði einhverja hugmynd um það hvað dýr ganga í gegnum, en fram að því hafði ég hugsað sem svo að þjáningar þeirra væru bara hluti af því hvernig heimurinn ætti að vera.

Þetta myndband gerði mér ljóst að ég er ábyrgur fyrir því vali sem ég kýs, að með því að velja að borða kjöt hafði ég tekið þátt í skelfilegri grimmd og að ég var að safna upp neikvæðu karma, sem ég þyrfti að svara fyrir. Upphaflega var ákvörðun mín um að hætta kjötleyslu innblásin af ótta við trúartengdar afleiðingar en ég fann strax að kjötleysið jók vellíðan mína með sjálfan mig. Það efldi sjálfsvirðingu mína og veitti mér svo mikla ánægju að mig langaði að gera meira.

Ég fór að leita nýrra leiða til að útrýma grimmd úr mínum lífsstíl. Ég hætti að ganga í leðri, borða fisk og egg, og um leið og ég keypti fyrstu fernuna mína af möndlumjólk var ég orðinn vegan. Ég leit raunverulega aldrei á það sem fórn af minni hálfu, þetta var frekar eins og leikur sem snerist um hversu vel mér gæti liðið með sjálfan mig. Fyrst hélt ég að ég væri bara að hjálpa dýrum, ég áttaði mig ekki á að ég var virkilega að gera nokkuð heilnæmt fyrir sjálfan mig. Ég vissi ekki að ég væri að draga stórkostlega úr líkunum á að þróa með mér krabbamein, hjartasjúkdóma, sykursýki, offitu og fjölda annarra heilsufarsvandamála.

Næstum því um leið og ég varð vegan fór fólk að segja mér að húðin á mér liti frábærlega út og að ég virtist yngri, grennri og heilbrigðari. Ég er viss um að af öllum þeim breytingum sem ég hef gert á lífsstíl mínum þá er það innleiðing veganismans sem hefur verið sú besta fyrir mig – líkamlega, andlega og sannarlega trúarlega. Hún hefur gagnast öllum hliðum lífs míns.“

Höfundur: Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir

Áður birt á innihald.is